39.275 eintök í dag.

Greinar

Af DV eru í dag prentuð 39.275 eintök eins og fram kemur hægra megin í blaðhaus á forsíðu. Þetta er venjulegt mánudagsupplag. Á laugardögum eru prentuð 37.800 eintök af DV og 37.000 hina fjóra útkomudaga vikunnar.

Tölur þessar eru lesnar beint af teljara prentvélar Árvakurs. Á sama hátt væri unnt að lesa af teljurum prentvéla upplag annarra dagblaða, sem gefin eru út hér á landi. En þær tölur eru leyndarmál, af augljósum ástæðum.

Á upplýsingaöld ætti að vera liðinn sá tími, er upplag dagblaða var feimnismál, þar sem sannleikurinn var falinn að baki óljósra lausafregna, af því að menn töldu sig þurfa að koma ýktum hugmyndum á framfæri.

Aðstandendur ýmissa annarra dagblaða mættu gjarna fylgja frumkvæði DV á þessu sviði eins og þeir hafa gert í svo mörgu öðru. Þeir ættu að gefa út sannanlegar tölur um prentað upplag og hætta gagnslitlum blekkingum.

Bezt væri samkomulag dagblaðanna og auglýsingastofanna um reglubundið upplagseftirlit fyrir opnum tjöldum, svo sem tíðkast í öllum nálægum löndum. En því miður hafa feluleiksmennirnir kæft tilraunir af því tagi.

Í þessu óeðlilega ástandi hefur DV tekið frumkvæðið. Í rúma viku hafa daglega birzt á forsíðu tölur um prentað upplag, 37.000 eintök, 37.800 og 39.275 eintök. Ætlunin er, að þetta verði áfram dagvissar upplýsingar.

Frumkvæði af þessu tagi er auðvitað aðeins tekið af dagblaði, sem er í sókn. Að baki liggur vaxandi upplag undanfarna mánuði og spá um enn vaxandi upplag á næstu mánuðum. Í birtingu talnanna er styrkleikamerki.

Hinn nýi háttur var einmitt tekinn upp á eins árs afmæli sameiningar Dagblaðsins og Vísis í eitt blað. Hann er staðfesting á, að eins árs reynsla er komin á gæfu og gengi, í stað fyrri óvissu um árangur sameiningarinnar.

Hún hefur gert kleifa útgáfu blaðs, sem er mun stærra og fjölbreyttara en forverarnir voru hvor um sig, – blaðs, sem er mun betur búið undir hina hörðu samkeppni á íslenzka fjölmiðlamarkaðinum en forverarnir voru hvor um sig.

Ekki hafa rætzt hrakspárnar um framtíð hins sameinaða dagblaðs. Það hefur traust og vaxandi lesendafylgi, enda hefur það kappkostað að vera frjálst og óháð í afstöðu til hinna margvíslegu valdastofnana þjóðfélagsins.

Sem dæmi um sérstöðu blaðsins á þessu sviði má nefna, að það þiggur ekki ríkisstyrkinn, sem veittur er á fjárlögum til blaðaútgáfu, hvorki fyrir 250 eintökin, sem hin blöðin senda hvert um sig, né fyrir 200 eintökin, sem hvorki eru prentuð né send.

DV er blað, sem vill veita fólki upplýsingar og fróðleik í efni og auglýsingum. Það er blað, sem vill vera vettvangur skoðanaskipta í greinum og bréfum. Það er blað, sem vill vera aðhald með því, sem stundum er kallað “kerfið”.

Á þessum forsendum hefur fyrsta ár sameiningarinnar lánast svo vel, sem birting upplagstalna sýnir. 39.275 eintökin í dag samsvara eintaki á þrjú heimili af hverjum fjórum í landinu. Slík útbreiðsla þekkist ekki í útlöndum.

Svo er nú komið einu ári eftir sameiningu, að DV er víða um land orðið útbreiddasta blaðið. Þau nánu tengsl blaðs og þjóðar viljum við treysta og efla með því að síauka þá þjónustu, sem DV veitir lesendum sínum.

Jónas Kristjánsson.

DV