San Stae
Aðeins ofar við Canal Grande komum við að kirkju og bátastöð á vinstri bakkanum.
San Stae er marmarahvít hlaðstílskirkja frá upphafi 18. aldar með styttum skreyttri hásúlna-framhlið.
Í kórnum eru listaverk eftir Tiepolo og Piazzetta.
Frá bakkanum framan við kirkjuna er ágætt útsýni yfir Canal Grande til hallanna fyrir handan.
Ca’ Pesaro
Enn höldum við áfram og komum hægra megin að voldugri og hvítri höll.
Ca’ Pesaro er dæmigerð hlaðstílshöll, hönnuð af Baldassare Longhena, reist á síðari hluta 17. aldar í grófum stórgrýtisstíl að neðan og ríkulega skreyttri framhlið með súlum og súlnapörum.
Hún hýsir nú nútímalistasafnið, Gal
leria D’Arte Moderna og Austurlandasafnið, Museo Orientale. Í listasafninu eru meðal annars verk eftir Miró og Matisse, Klee og Kandinsky.
Palazzo Fontana Rezzonico
Handan Canal Grande sjáum við rauðgula glæsihöll.
Palazzo Fontana Rezzonico er þekktust fyrir að vera fæðingarstaður Rezzonico greifa, sem varð síðar fimmti páfinn frá Feneyjum. Hún er tímalaus að stíl, minnir mest á býzanska stílinn með háum og grönnum rómönskum bogum, en samt engum bátasvölum á neðstu hæð. Aðalsmerki hennar er rauðguli liturinn.