San Giorgio dei Greci
Við förum vestur eftir norðurenda torgsins og beygjum síðan til hægri eftir Campo San Provolo og Fondamenta dell’Osmarin. Þar komum við að skurði, sem við förum yfir á tveimur brúm. Samtals er þetta tæplega 300 metra leið. Með bakkanum handan síðari brúarinnar liggur leið að kirkju með óvenjulega skökkum turni.
San Giorgio dei Greci er 16. aldar kirkja með afar höllum turni. Hún er grísk rétttrúnaðarkirkja með innri kvennasvölum og íkonabrík milli kórs og kirkjuskips.
Í þessu hverfi var veitingahúsið Arcimboldo.
San Giovanni in Bragora
Við förum til baka út að brúnum tveim, sem við fórum yfir, beygjum þar til hægri og förum eftir Calle della Madonna og Salizzada dei Greci yfir brú og áfram meðfram kirkjunni San Antonio eftir Salizzada Sant’Antonin að torginu Campo Bandera e Moro, að Bragora kirkjunni, samtals um 400 metra leið.
San Giovanni in Bragora er einföld gotnesk kirkja frá 1475-1479.
Hún er búin mörgum listaverkum frá síðgotneskum tíma og frá upphafi endurreisnar. Þar á meðal er gotneskt guðsmóðuraltari eftir Bartolomeo Vivarini og endurreisnarmálverk við háaltari eftir Cima da Conegliano af skírn Krists.
Rétt hjá kirkjunni er veitingahúsið Corte Sconta.
Næstu skref