4. Danmörk – Ærey

Borgarrölt
Ærøskøbing, Fyn

Ærøskøbing

Síðasta ferjan til Marstal á Ærø fer 20:15 og um helgar 21:15. Hin næstsíðasta fer 17:55 og 18:15 um helgar. Siglingin tekur um 60 mínútur. Frá höfninni í Marstal er skammur 5 km akstur til Ærøskøbing. Þar staðnæmumst við nákvæmlega í miðju gamla bæjarins, á bílastæði hótelsins Ærøhus, Vesterbrogade 38, sími (09) 52 10 03. Það er rólegt, gamalt hótel með nýtízkulegum herbergjum í garðhúsum.

Orðið er áliðið, svo að við flýtum okkur í Mumm, Söndergade, sími (09) 52 12 12, þar sem við eigum pantað borð. Eftir kvöldmat röltum við um gömlu strætin, Söndergade, Gyden, Nørregade, Smedegade og þvergöturnar Vestergade og Brogade. En við höfum betri tíma á morgun til að kanna þennan 17. og 18. aldar bæ, sem er betur varðveittur en aðrir slíkir í Danmörku.

Ærøskøbing er raunar hápunktur ferðar okkur inn í rómantíska fortíð. Allur bærinn er eins og safn. Þar eru 36 friðuð hús, en öll í fullri notkun. Um morguninn mætum við nútímabörnum á leið um göngugöturnar til skóla. Og ferðamenn eru ekki of margir, af því að staðurinn er úr alfaraleið.

Virka daga getum við tekið 10:45 ferjuna frá Søby, 16 km vestur frá Ærøskøbing. Alla daga náum við 13:15 ferjunni, sem gefur okkur lengri tíma í andrúmsloftinu í Ærøskøbing, en þá þurfum við líka að hringja í vertinn í Faldsled kro til að segja, að við verðum sein í hádegisverð, um 14:30. Ferjan er 60 mínútur á leiðinni til Fåborg á eyjunni Fyn.

Næstu skref