4. Dorsoduro – Accademia

Borgarrölt
Santa Maria della Carita, Feneyjar

Accademia er í klaustri Santa Maria della Carita

Við göngum eftir skurðbakkanum og síðan beint áfram eftir Calle della Chiesa og Piscina Fornier, framhjá listasafninu Collezione Cini, sem er stundum opið og oftast ekki, og áfram eftir Calle Nuova Sant’Agnese að vesturhlið Accademia, alls rúmlega 300 metra leið. Við göngum norður fyrir safnið til að komast að inngangi Accademia.

Helzta og stærsta listasafn borgarinnar er til húsa í klaustri og klausturkirkjunni Santa Maria della Carità. Það sýnir þróun feneyskrar málaralistar frá býzönsku og gotnesku upphafi til endurreisnar og hlaðstíls. Þar sem feneysk málaralist skipar eitt fremsta sætið í listasögu þessara tímabila, er Accademia með merkustu málverkasöfnum veraldar.

Merkustu verkin úr aflögðum kirkjum og klaustrum borgarinnar hafa verið flutt hingað, svo og ýmis helztu einkennisverk feneyskrar listasögu. Uppsetningin er í tímaröð, svo að auðvelt er að átta sig á þróun feneyskrar málaralistar. Rúmt er um málverkin, svo að tiltölulega auðvelt er að njóta þeirra, einkum þó á vel björtum degi.

Safnið stækkaði við brottflutning akademíunnar sjálfrar, Accademia di Belle Arti, svo að unnt er að sýna verk, sem áður lágu í geymslum. Hér eru verk eftir hina býzönsku Paolo Veneziano og Lorenzo Veneziano, endurreisnarmennina Jacopo Bellini, Gentile Bellini og Giovanni Bellini, Palma og Tiziano, svo og hlaðstílsmálarana Giambattista Tiepolo og Giandomenico Tiepolo.

Næstu skref