4. Downtown – Wall Street

Borgarrölt

Wall Street

Við erum í miðju bankagljúfri heimsins. Ef við erum hér í hádeginu, er varla hægt að komast leiðar sinnar í mannmergðinni. Hér var áður veggurinn, sem Hollendingar reistu til varnar gegn Indjánum. Gatan er enn dálítið undin eins og veggurinn var. Hér eru bankar á alla vegu, svo og kauphöllin á hægri hönd.

New York Stock Exchange

Kauphöllin í New York var reist 1903 í rómverskum musterisstíl. En það er ekki útlitið, sem skiptir okkur máli, heldur innihaldið. Úr hliðargötunni Broad Street er inngangur á nr. 20. Þar getum við fengið að fara inn og upp á svalir til að virða fyrir okkur atganginn á kauphallargólfinu.

Chase Manhattan, New York

Dubuffet framan við Chase Manhattan

Sérfræðingur í kauphallar-viðskiptum reynir að skýra fyrir okkur, hvernig kauphöllin starfar. Við erum litlu nær, en horfum í leiðslu á vitfirringsleg köll og handapat 3000 braskara á 900 fermetra pappírs-ruslahaug kauphallargólfsins. Þeir horfa á risastóra talnaskjái á veggjunum og lemja lyklaborðin á tölvunum. Þær eru á 16 viðskiptaeyjum á gólfinu, 60 á hverri eyju, samtals 960.

Öll viðskipti eru samstundis sýnd á veggjunum, ekki bara hér, heldur um gervihnött í London og Tokyo, þar sem svipaður atgangur á sér stað. Raunar eru svona kauphallir, í smærri stíl, í öllum stórborgum hins vestræna heims, — nema Reykjavík.

Chase Manhattan

Þegar við komum aftur út undir bert loft, göngum við til baka Broad Street, yfir Wall Street og áfram inn Nassau Street. Eftir 50 metra göngu komum við að torginu fyrir framan Chase Manhattan bankann. Þar er frægt listaverk eftir Dubuffet, fjögur tré í svörtu og hvítu. Ennfremur kjallaragarður úr steini og vatni eftir Isamu Noguchi.

Næstu skref