McDaid’s
Bókmenntakráin í miðbænum er hin örsmáa McDaid’s við örstutta þvergötu frá Grafton Street, nánast undir Westbury hóteli. Hér sátu Brendan Behan og fleiri þekktir rithöfundar.
Kráin er fallega skreytt að utan og innan. Afar háir gluggar snúa út að götu, sumpart steindir. Skrautlegar postulínsflísar eru á veggjum undir myndum af Samuel Becket og minna frægum skriffinnum.
Enn þann dag í dag er bókmenntasvipur á kránni, því að hingað koma háskólakennarar og nemendur í bókmenntum til að halda hefðinni við.
(McDaid’s, Harry Street, C3)
Duke
Innarlega við Duke Street er ósvikin krá gamla Viktoríutímans, The Duke, fín og rúmgóð og björt, með múrmálverkum og fremur litlu af viði.
Barstólarnir eru bólstraðir og standa á parkettgólfi. Barinn er með steindu gleri að baki. Fínt teppi er á gólfi við útidyr og gefur tóninn. Sófar eru á pöllum við veggi og háir barstólar niðri á gólfinu framan við pallana.
Gestir eru margir hverjir úthverfafólk í innkaupaferð, sem fær sér bjór og snarl í hléi milli búða, enda er verðlagið hagkvæmt, þótt staðurinn sé fínn og snyrtilegur.
(The Duke, 9 Duke Street, D3)