Foro di Cesare
Mussolini lét í æði sínu leggja breiðgötuna Via dei Fori Imperiali beint yfir hinar fornu rústir. Yfirvöld nútímans hafa ekki enn megnað að manna sig upp í að framkvæma ásetning um að fjarlægja götuna til að leita fleiri fornleifa.
Við förum yfir breiðgötu Mussolinis og göngum til baka eftir henni í átt til Foro di Cesare, sem lá milli áðurnefndra torga og hins forna Rómartorgs, Forum Romanum, þétt við Capitolum-hæð. Við sjáum greinilega niður í tvo þriðju hluta hins forna torgs, sem Cesar lét gera árið 51 f.Kr. Enn standa þar þrjár súlur úr hofi Venusar Genetrix, sem Juliusarætt taldi ættmóður sína, svo og súlubrot úr gjaldeyrisverzlana-byrðunni Argentaria, er stóð meðfram forngötunni Clivus Argentarius.
Við bregðum okkur frá suðurenda torgsins inn sundið Via Tulliano í átt til sigurboga Septimusar Severusar. Á hægri hönd okkar eru tröppur niður í kirkjukjallara. Undir kirkjunni er fangelsi, Mamertine, á tveimur hæðum, þar sem geymdir voru óvinir Rómarveldis, svo sem Jugurta Afríkukóngur árið 104 f.Kr. og Vercingetorix Gallahöfðingi árið 46 f.Kr. Búnar hafa verið til sögur um, að Pétur postuli og fleiri kristnir píslarvottar hafi einnig verið í þessari prísund.
Héðan getum við virt fyrir okkur hluta af Forum Romanum, svo sem sigurboga Severusar og Tabularium, áður en við förum til baka meðfram Via dei Fori Imperiali, eftir göngustígnum Via della Salara Vecchia, til eina inngangsins í Forum Romanum.