Rigsdagsgården
Við yfirgefum umferðargný torgsins og förum göngin milli hallar til hægri og ríkisskjalasafns til vinstri og komum inn í Þjóðþingsport (Rigsdagsgården). Þar er til hægri voldugt anddyri Þjóðþingsins. Við beygjum hins vegar til vinstri inn fyrstu göng og erum komin inn í rósagarð Kongelige bibliotek, Konunglegu bókhlöðunnar.
Hér ríkir friður og ró, aðeins steinsnar frá ys og þys nútímans. Við hvílumst um stund á bekk, andspænis styttu heimspekingsins Søren K
ierkegård, sem sómir sér vel á þessum stað. Við virðum fyrir okkur Ríkisskjalasafnið að baki, Týhúsið (Tøjhuset) til hægri, Konunglega bóksafnið framundan og Próvíanthúsið (Proviantgården) til vinstri.
Þar sem þessi garður er nú, var áður herskipahöfn konunga Danmerkur. Þá voru vistageymslur flotans í Próvíanthúsinu og aðsetur lífvarðar konungs í Týhúsinu. Það hús lét Kristján IV konungur reisa 1598-1604. Nálægðin við Kristjánsborg sýnir, hve mikilvægt var konunginum að hafa flotann undir handarjaðrinum.
Eftir hvíldina förum við aftur út í Þjóðþingsport og beygjum þar til vinstri að anddyri Týhússins. Þar var 1928 komið upp merku vopnasafni, þar sem mest áberandi eru margir tugir, ef ekki hundruð, fallstykkja frá fyrri tímum.