4. Persía – Kerman

Borgarrölt

Kerman

Við byrjum á að taka 1000 kílómetra flug til borgarinnar Kerman, þar sem hefst rútuferð okkar um Persíu frá suðri og til baka til norðurs í Tehran.

Kerman er eyðimerkurbær í 1755 metra hæð sunnarlega í Íran og var á ýmsum tímum höfuðborg ríkisins. Marco Polo heimsótti bæinn á leið sinni um silkileiðina frá Feneyjum til Kína. Bærinn var oft hertekinn í innanríkisátökum og er í núverandi mynd að mestu leyti frá tímanum eftir 1800.

Rayen kastali

Rāyen kastalinn

Eldsdýrkendur Zaraþústra voru lengi fjölmennir í Kerman. Þar er enn eldmusteri þeirra og í því er þekktasta safn heims um Zoroaster-trúna. Enn eru tæplega 2000 eldsdýrkendur í borginni.

Arg-ei Rāyen kastalinn

Í eyðimörkinni 80 km austan við Kerman er kastalinn Arg-e Rāyen. Hann er byggður úr þurrkuðum leir, ekki leirsteinum, svipað og sjá má víða í suðurkanti Sahara eyðimerkurinnar. Ekki má rigna mikið á slík mannvirki, því að þá leka þau niður.

Kastalinn er þúsund ára gamall, var í notkun fram undir lok 19. aldar. Þar stendur enn höll héraðshöfðingjans og ýmis önnur híbýli, svo og ytri virkisveggir.

Bāgh-e Shāzdeh garðurinn

Í leiðinni milli Kerman og Rāyen er Bāgh-e Shāzdeh garðurinn, lagður árið 1850. Þar rennur vatn stall af stalli í gróðursælum lundi milli sumarhalla í eyðimörkinni.

Næstu skref
Bagh-e Shahzde garðar, Mahan

Shāzdeh garðurinn