Madrid er ekki bara fjörugusta höfuðborg Evrópu, heldur líka sú hæsta, í 646 metra hæð yfir sjávarmáli, með þrjár milljónir íbúa. Nafn borgarinnar er frá Márum, sem kölluðu hana Magerit. Árið 1083 náðu kristnir menn henni af íslömum. Hún varð af tilviljun höfuðborg árið 1561, þegar Habsborgarinn Filippus II ákvað að reisa konungshöllina El Escorial. En hún var áfram sóðalegt þorp enn um skeið.
Borgin fékk ekki höfuðborgarbrag fyrr en með valdatöku Búrbóna á 18. öld. Þeir byggðu konungshöllina og málverkahöllina Prado og lögðu breiðstræti og garða um borgina. Með opnun nýrra listasafna er Madrid orðin ein helzta lista- og menntaborg heimsins.