Centro de Arte Reina Sofia
Torgið fyrir neðan brekkuna er Plaza del Emperador Carlos V. Við förum yfir torgið, göngum nokkra metra suðvestur eftir breiðgötunni Atocha og beygjum til hægri inn í götuna Santa Isabel. Þar á nr. 52 er nýlega búið að innrétta nútímalistasafn í gömlu sjúkrahúsi. Þetta er Centro de Arte Reina Sofia, auðþekkjanlegt af miklum glerhýsum utan um lyftuganga, sem hafa verið reistir utan við gamalt húsið.
Þetta er víðáttumikið safn, á stærð við Pompidou-safnið í París og státar að sjálfsögðu af spönsku snillingunum Salvador Dalí, Joan Miró og Pablo Picasso. Hugsanlegt er, að Guernica eftir Picasso, sem nú er í öðru safni í Madrid, verði flutt í þetta safn.
Colección Thyssen
Við förum til baka til torgs Karls keisara og göngum norður eftir breiðgötunni Paseo del Prado, sem er safngata borgarinnar, liggur nokkurn veginn frá Reina Sofia til Palacio de Villahermosa við torgið Canovas del Castillo, þar sem hótelin Palace og Ritz horfast í augu og þar sem spánska þjóðþingið, Cortes, er handan við Palace-hótel.
Í Palacio de Villahermosa er svo verið að innrétta enn eitt safnið á þessum litla bletti. Það er safn 787 listaverka, sem svissneski auðkýfingurinn Thyssen-Bornemisza er að afhenda Spáni til varðveizlu. Það verður opnað um áramótin 1991-1992. Þá verða þrjú voldug málverkasöfn á um það bil eins kílómetra kafla við breiðgötuna Paseo del Prado. Það eru Colección Thyssen, Centro de Arte Reina Sofia og síðast en ekki sízt Museo del Prado.
Paseo del Prado
Á hægri hönd er fyrst grasgarður borgarinnar, Jardin Botanico, og síðan eitt af allra frægustu söfnum heims, Museo del Prado, fölbleikt í nýgnæfum stíl.