Circle Line
Fyrsta og skemmtilegasta skoðunarferðin í New York er jafnframt hin þægilegasta. Við förum út að 83. bryggju við vesturenda 43rd Street og tökum okkur far með bátnum, sem siglir umhverfis Manhattan. Þar komum við okkur fyrir í þægilegu útsýnissæti og sötrum uppáhaldsdrykkinn á meðan við sjáum borgina líða hjá. Þetta er allra bezta aðferðin til að átta sig á afstöðu einstakra skýjakljúfa og borgarhverfa án þess að þurfa að rekast um í mannþröng og borgarhita.
Bezt er að koma sér fyrir á bakborða, því að báturinn fer rangsælis umhverfis Manhattan. Ennfremur er skynsamlegt að velja sér gott skyggni til fararinnar, helzt að morgni dags, því að stórborgum fylgir oft mistur, sem spillir skyggninu. Ferðin tekur þrjár stundir.
Island Helicopter
Nýstárlegri og fljótvirkari aðferð til að átta sig á hlutföllum Manhattan er að fara í þyrluflug. Farið er frá mótum 34th Street og East River. Unnt er að velja mismunandi löng flug, allt frá sjö mínútum og USD 30. Hálftíma flug yfir eyjuna þvera og endilanga og suður að frelsisstyttunni kostaði USD 84. Um þessa ferð gildir eins og um hina fyrri, að gott skyggni skiptir mestu máli. Okkur er ekki kunnugt um, að slys hafi orðið í langri sögu þessa þyrluflugs.
Fyrst er það menningin