Teatro Fenice
Frægasta stofnun torgsins Campo San Fantin er óperuhúsið Fenice. Við skoðum leikhúsið nánar.
Elzta leikhús borgarinnar og ein þekktasta ópera veraldar brann í ársbyrjun 1996. Teatro Fenice var frá 1792, í fölskum endurreisnarstíl, fremur einfalt að utan en hlaðið skrauti að innan, í rauðgulu, rauðu og gullnu. Áhorfendastúkur voru á fimm hæðum í hálfhring kringum sviðið og gólfið. Við hlið leikhússins er hóte
lið La Fenice et des Artistes og veitingahúsið La Fenice í sama húsi.
Frægast er leikhúsið fyrir frumflutning sögufrægra óperuverka á borð við La Traviata eftir Verdi, Tancredi og Semiramis eftir Rossini, I Capuleti ed i Montecchi eftir Bellini, Rake’s Progress efir Stravinsky og Turn of the Screw eftir Britten. Mörg verk eftir Richard Wagner voru sýnd hér, enda bjó hann lengi í Feneyjum.
Snemma á 17. öld urðu Feneyjar óperumiðstöð Ítalíu og héldu þeirri forustu í þrjár aldir. Í Feneyjum hætti óperan að vera einkamál aðalsins og varð að almenningseign. Þar náði óperettuformið flugi. Þar var líka jafnan lögð meiri áherzla á tónlistarþátt óperunnar en víðast annars staðar. Á 19. öld frumflutti Giuseppi Verdi mörg verka sinna einmitt hér í Teatro Fenice.
Næstu skref