4. San Sebastian

Borgarrölt
Arzak, restaurant, San Sebastian

Arzak, besta veitingahús Spánar, San Sebastián

Euzkadi

Baskaland, Pais Vasco, Euzkadi. Þetta er einn dularfyllsti hluti Spánar, þar sem fólk talar tungu, euskara, sem ekki er skyldi neinni annarri í heiminum. Og það sem meira er: Það er farið að taka niður spönsku götuskiltin og setja upp skilti á baskamáli, þar sem allt er fullt af x-um og z-um og enginn utanaðakomandi skilur neitt.

Hinar ofsafengnu pólitísku deilur í Euzkadi og milli Baska og Kastilíumanna hafa engin önnur áhrif á stöðu ferðamanna. Þótt menn séu enn skotnir á færi í Euzkadi, eru ferðamenn kerfisbundnir látnir í friði. Baskar eru slyngir kaupsýslumenn og vita, hvar mörkin liggja.

Eitt helzta sérkenni Baska er, að þeir eru meiri matgæðingar en flestir aðrir Evrópumenn, nema ef til vill Frakkar. Flest beztu veitingahús Spánar eru rekin af Böskum eða hafa að minnsta kosti Baska í eldhúsi. Heima fyrir í Euzkadi keppast karlar um að vera í matreiðsluklúbbum, txokes, og skiptast á um að halda dýrindis veizlur. Í Euzkadi jafngildir þetta Lions og Kiwanis.

Marmitako er túnfisksúpa, blönduð kartöflum, papriku og kryddi, þekktur baskaréttur. Txakoli heitir fölt og grænleitt vín svæðisins. Idiázabal er frægasti baskaosturinn. Smokkfiskur í eigin bleiki, chipirones en su tinta, er hvergi betri en í Euzkadi.

San Sebastián

Guipúzoca heitir sá hluti Euzkadi, sem næstur er Frakklandi og áhugaverðastur er ferðamönnum. Þar er höfuðborgin San Sebastian, ein af meiriháttar sumarleyfaborgum Spánar og mesta matreiðsluborg Spánar.

San Sebastian komst í tízku um og eftir miðja nítjándu öld, þegar Ísabella II og síðan María Cristina Spánardrottningar gerðu borgina að sumardvalarstað hirðarinnar.

Enn þann daga í dag er stéttaskiptingin hin sama. Almúginn fer í sólskinið til Costa del Sol, Costa Brava, Costa Blanca, Costa Dorada, Benidorm og svo framvegis, en fína fólkið í fréttunum fer til San Sebastian, þar sem sólskinið er minna, en samkvæmislífið er betra. Borgin er Biarritz Spánar.

San Sebastian er orðin að tæplega 200 þúsund manna bæ. Það, sem skiptir ferðamenn máli, er þó aðeins pínulítill blettur af borginni, það er að segja gamli miðbærinn, þar sem eru frægu hótelin og góðu matsölustaðirnir, svo og baðströndin fræga, Playa de la Concha.

Urgull

Skemmtilegast er að rölta úr miðbænum eftir Paseo Nuevo kringum höfðann Urgull. Uppi á honum er virki og stríðsminjasafn, svo og gott útsýni yfir miðbæinn. Þangað upp verður að fara fótgangandi.

Að öðru leyti gera menn það sér til dægradvalar að þræða veitingahúsin í miðbænum, sofa og éta, éta og sofa.

Næstu skref