4. Westminster – Westminster Abbey

Borgarrölt
Westminster Abbey, London

Westminster Abbey

Westminster Abbey

Sömu megin götunnar snýr Westminster Abbey afturhluta að Westminster Palace. Þetta er krýningar-, giftingar- og greftrunarkirkja brezkra konunga og minningarstaður um þjóðhetjur ríkisins. Meðan St Paul´s er höfuðkirkja borgarinnar, er Westminster Abbey höfuðkirkja ríkisins.

London, UK

Westminster Abbey

Að stofni er kirkjan hluti Benediktínaklausturs. Smíðin hófst árið 960 og var síðan haldið áfram eftir 1055, upphaflega í normönskum stíl, en eftir 1220 meira í gotneskum stíl. Hún er franskrar ættar, hærri og mjórri en enskar kirkjur. Aðalskipið er 31 metri á hæð, hið hæsta í Englandi. Vesturturnarnir eru yngstir, í gotneskri stælingu frá upphafi 18. aldar.

Kirkjan hefur verið hreinsuð að utan, svo að mildir litir hleðslusteinsins koma vel í ljós. Þar sem við stöndum að kirkjubaki sjáum við vel turna og svifsteigur frá tíma Hinriks 7.

Við göngum svo meðfram kirkjunni að norðanverðu, þaðan sem hún er fegurst að sjá. Þar er mest áberandi stór rósagluggi með stílfögrum svifsteigum í kring. Áður en við förum inn í kirkjuna, bregðum við okkur inn í friðsælan Dean´s Yard til að sjá kirkjuna að sunnanverðu.

Inn í kirkjuna förum við að vestanverðu, þar sem útsýnið er stórfenglegt inn eftir aðalskipinu. Andspænis innganginum er minnismerki um Winston Churchill og að baki þess leiði óþekkta hermannsins.

Mint

Mint

Bæði þverskipin eru hlaðin minnismerkjum. Innar í kirkjuna komumst við um hlið í norðurskipi. Eftir að hafa skoðað nyrðra þverskipið förum við ferilganginn til kapellu Hinriks 7. í ríkulega skreyttum, gotneskum stíl í austurenda kirkjunnar. Þar eru yfir 100 styttur.

Frá kapellunni förum við á brú til baka yfir að helgidómi Játvarðs I. Þar er krýningarhásætið frá 1300, þar sem nær allir enskir konungar frá Vilhjálmi bastarði hafa verið krýndir. Undir hásætinu er Scone-steinninn, krýningarsteinn skozkra konunga allt frá 9. öld, þar á meðal hins sögufræga Macbeths.

Héðan liggur leiðin yfir í syðra þverskipið, þar sem eru minnisvarðar margra fremstu rithöfunda á enskri tungu. Þar eru líka dyr til klausturs, sem gengið er um til að komast í Chapter House, sammiðja, átthyrndan sal, sem reistur var árið 1250 og notaður á miðöldum fyrir fundi enska þingsins.

Skoðunarferðum okkar um London er hér með lokið.