40 km dagleiðir
Fararstjórarnir
Eiðfaxi hefur talað við nokkra gamalreynda fararstjóra í löngum hestaferðum um, hvernig ferðadagar séu skipulagðir. Svör nokkurra þeirra birtust í tveimur síðustu tölublöðum. Hér í opnunni og á næstu opnu birtast nokkur svör í viðbót. Þar með lýkur þessum greinaflokki.
Baltasar Samper:
Þrjár vikur og jafnvel fjórar finnst okkur vera hæfileg lengd á sumarferð. Við ríðum fyrst í tvo daga til reynslu og reynum svo að hvíla hestana á þriðja degi ferðar, ef aðstæður leyfa, annars við fyrsta tækifæri. Síðan gerum við ráð fyrir einum eða tveimur hvíldardögum í hverri viku. Stundum er hægt að nota aukadaga til að skreppa á bílnum í sund eða hitta bændur og búalið, þegar riðið er í byggð.
Við erum yfirleitt með níu-tíu hesta saman við tvö. Okkur finnst gott að nota fjóra hesta á dag og hvíla einn, ef aðstæður leyfa. Á venjulegum dagleiðum þurfum við ekki nema þrjá-fjóra hesta. Áfangar hjá okkur eru oft hálfur annar klukkutími eða tíu kílómetrar. Við stefnum að 40 kílómetra dagleiðum, sem taka þá um átta klukkustundir. Inn á milli geta verið lengri dagleiðir, ef aðstæður kalla á slíkt. Við erum samt ekki að rembast við langar dagleiðir, því að við erum fyrst og fremst að slaka á.
Við ríðum reglubundið út allan veturinn, svo að hestarnir eru vel þjálfaðir. Við sleppum þeim svo í haga yfirleitt um miðjan júní. Við snertum þá svo ekki fyrr en kemur að ferðalaginu í júlí. Þeir fá góðan tíma til að hvíla sig fyrir ferðina. Þjálfunin um veturinn nægir þeim vel til undirbúnings. Þeir tapa ekki formi á þremur vikum. Við teljum þetta fara vel með hestana og gott að fara af stað í ferð með úthvílda hesta. Ef hross hafa ekki fengið vetrarþjálfun og koma beint af útigangi, er skynsamlegt að láta þau bara hlaupa með fyrstu þrjá dagana, áður en farið er að brúka þau.
Við byrjum daginn eftir morgunmat á fundi, þar sem ég afhendi hverjum fyrir sig kort og lýsingu dagleiðarinnar. Þar ræðum við svo um, hvernig dagurinn verður, hvernig líklegt sé, að áfangarnir skiptist og hvar sé bezt að nota hvaða hest, hvar séu ár á leiðinni og svo framvegis. Einnig er farið sérstaklega yfir leiðina, sem bílstjórinn þarf að fara, sem oft er allt önnur leið. Við áætlum líka ferðatíma og komu í nýjan næturstað. Síðan er farið að pakka trússinu og fella tjöld. Trússarinn gengur svo frá hestagirðingunni, þegar við erum farin af stað.
Hann reynir svo að vera kominn á undan okkur á nýja staðinn til að setja girðinguna upp, áður en við komum. Þegar reiðfólkið kemur, er byrjað á að reisa stóra eldunar- og matartjaldið, sem tekur enga stund. Kristjana og kvenfólkið fer að elda, en ég og karlarnir förum að ganga frá hestunum, gefa þeim og líta á járningar.
Við reynum að byrja daginn á ungu klárunum og leyfum þeim gömlu að liðka sig, áður en við förum á bak þeim. Ef dagleiðin er venjuleg, förum af stað eftir hádegið, þegar hestarnir eru búnir að leggja sig í hádeginu. Við leggjum oft af stað um tvöleytið og erum komin í náttstað um tíuleytið eða framundir miðnættið. Við erum helzt á ferðinni í júlí, þegar nætur eru bjartar. Ef dagleiðir eru langar eða við þurfum að fara yfir ár, sem eru minnstar á morgnana, förum við fyrr af stað.
Yfirleitt er engin sérstök stjórn á hlutunum, þegar allt er í lagi og flestir eru vanir. Gott er að hafa einn eða tvo í forreið og einhverja, sem eru tilbúnir að fara á vængina, ef á þarf að halda. Ég er oft fremstur, ef leiðin er vandrötuð. Flestir eru í eftirreið, nema þeir vilji vera fyrir framan vegna viljugra hesta. Svo er fólk stundum á hestum, sem ekki er hægt að beita, og þá er það óvirkt meðan á því stendur. Að öðru leyti eru flestir vanir rekstri og geta tekið þátt í honum.
Ég hef gamaldags svipu, sem ég renni í vasa sem ég hef látið sauma á skálmarnar, svo að ég týni henni ekki. Hana nota ég til að koma í veg fyrir, að lausir hestar fari fram úr mér. Margir ferðafélaga okkar eru með píska og vinna vel með þeim.
Við látum hrossin mest ráða ferðinni, enda eru þau flest vön ferðahross. Forreiðin þarf stundum að halda aftur af fremstu hestunum, ef of mikið er rekið á eftir lestinni. Yfirleitt gengur þetta vel, hestarnir lesta sig fljótt, rúlla slakir og fínir og auka hraðann, þegar gatan er góð. Ætli hraðinn sé ekki um svona sjö kílómetrar á klukkustund á venjulegri götu.
Í hnakkinn kl.10
Þormar Ingimarsson:
Á síðari árum hefur það verið föst regla hjá mér að fara ekki um ókunnar slóðir nema hafa einhvern staðkunnugan með í ferð. Ég er alveg hættur allri ævintýramennsku á því sviði. Það er heldur ekki svo dýrt að ráða topp-leiðsögumann, þegar kostnaðurinn skiptist á marga ferðafélaga, þúsundkall á mann á dag upp í tíuþúsund krónur alls á dag. Slíkur maður þekkir landið og býr til slaka í hópnum, því að enginn efi er um, hvar við séum og hvert er verið að fara.
Í fjölmennum ferðum getur verið töluverð verkaskipting. Einhver hefur venjulega skipulagt leiðina og er eins konar leiðsögumaður af hálfu hópsins og sambandsaðili við staðkunnuga leiðsögumanninn. Sami maður eða einhver annar er svo eiginlegur fararstjóri og stjórnar hópnum. Í stórum hópum er líka gott að hafa einhvern eða einhverja eftirreiðarstjóra, sem passa að reksturinn lesti sig og ekki sé rekið of mikið á eftir. Þeir fylgjast með, hvort skeifur séu að losna eða hestar að heltast. Gott er líka, að þeir hafi áhrif á að jafna út vinnu við að ríða fyrir hross, því að menn eru misjafnlega duglegir við slíkt.
Ef óvanir menn eru í hópnum, er gott að benda þeim strax á að taka virkan þátt í að vakta hestana í áningu, mynda hringinn umhverfis hrossin, standa að þeim og vera ekki að einhverju gaufi eða að tala við náungann. Það þarf að minna þá á að sleppa ekki hnakkhestinum fyrr en þeir hafa náð í nýjan hest. Gott er, að menn vinni saman tveir og tveir og skiptist á um að ná hestum og passa hringinn.
Einnig þurfa nýliðar að vita, að menn eiga ekki að stíga á bak, fyrr en fararstjóri gefur merki. Annað, sem nýliðar þurfa að vita, kemur yfirleitt af sjálfu sér, svo sem að taka þátt í að ríða fyrir hesta, sem fara úr rekstrinum.
Yfirleitt nota ég band í áningu. Í fyrrasumar byrjaði ég að nota granna og sterka veiðilínu. Hún er á litlu veiðihjóli, sem kemst í vasa. Það heyrist dálítið skrallhljóð, þegar hún er dregin út, svo að hestarnir vita af henni. Það er fljótlegt að draga hana inn og hún flækist ekki eins og borðarnir gerðu stundum. Ég hef líka prófað línu eins og smiðir nota, en veiðihjólið reyndist betur.
Mér finnst gott að fara á fætur um áttaleytið á morgnana og vera kominn í hnakkinn um klukkan tíu. Góður áfangi finnst mér vera þrjú kortér eða 6-8 kílómetra og skipti þá um hest í hverjum áfanga. Bezt er að skipta sem oftast.
Ég hef aldrei minna en fjóra hesta fyrir mig sjálfan og oft fimm. Velja þarf hraða, sem hentar öllum, svo að menn dragist ekki aftur úr. Góður ferðahraði er 15-20 kílómetrar á klukkustund, meðan flotinn er á hreyfingu.
Mér finnst gott að vera með písk á ferðalögum til að sveifla út og halda aga á lausu hrossunum, til dæmis þeim, sem vilja æða fram úr forreiðinni. Sumir eru að vísu á svo viljugum hestum, að þeir eiga erfitt um vik að nota písk.
Lesa þarf á hestana
Bjarni E. Sigurðsson:
Yfirleitt nota ég þrjá hesta minnst. Áfangar fara að einhverju leyti eftir því, hversu hestsárir samferðamennirnir eru. Sumir vilja hlífa ákveðnum hestum við ákveðnu landslagi eða nýta flottan gæðing á góðri götu. Til þess að taka tillit til allra slíkra sjónarmiða verða áfangarnir oft styttri og fleiri en þeir þurfa nauðsynlega að vera og það er bara ágætt.
Páll á Kröggólfsstöðum hafði þrjár grundvallarreglur, sem ég hef haldið alla tíð. Fyrsta reglan var að ríða alltaf utan við þjóðbrautina, þegar þú getur. Hann var harður á þessu, enda sá ég, hvernig hestar linuðust við að ríða á hörðu.
Önnur reglan var að stanza vel í vatni og leyfa öllum hestunum að drekka. Forreiðin þarf þá að gæta þess að halda aftur af lausu hestunum og eftirreiðin má ekki þrýsta á. Í þriðja lagi mega hross ekki missa kviðinn á ferðalagi, þá verða þau máttlaus. Hross mega til dæmis ekki fara mögur í ferðir. Þau mega hins vegar vera of feit, en þá er gott að ríða hægar til að byrja með,stanza oftar og brúka þau minna.
Sumir ferðamenn vilja fara 50-70 kílómetra á dag. Það finnst mér ekkert sniðugt, ef maður er að slaka sér og njóta ferðarinnar. Skemmtiferð hættir að vera skemmtiferð um leið og maður eða hestur verður þreyttur. Það er ekkert gaman að kvöldi í áningarstað, ef allir eru þreyttir. Þá verður jafnvel maturinn vondur, af því að við erum pirruð. Hæfileg dagleið er ein eða tæp þingmannaleið, 36 kílómetrar.
Í upphafi ferðadags og eftir hverja áningu þarf að finna, hverjir verða í forreið og hverjir verða í eftirreið og skipta liði í staðsetningu, þegar lausu hrossunum er sleppt. Þá er mikilvægt að hafa virkilega góða reiðmenn fyrir aftan, því að það er vont að missa hest til baka. Það getur kostað tveggja-þriggja tíma eltingaleik. Eftirreiðin þarf líka að geta fylgzt með, hvort skeifa byrjar að glamra eða hestur er farinn að sýna helti.
Sumum finnst meira gaman að vera á eftir og njóta sem bezt að sjá lausu hrossin hlaupa í landslaginu. Beztu ljósmyndir úr hestaferðum eru teknar úr eftirreiðinni. Öðrum finnst meira gaman að vera á undan og sjá landið opnast fyrir sér. Allt gengur þetta ágætlega upp í samhentum hópi.
Gott er að byrja daginn á hægri ferð og ríða ekki mikið meira en 20 mínútur áður en gefið er pissustopp. Eftir það má fara að kasta toppi. Allir þurfa að vera ábyrgir fyrir lausu hrossunum og vera tilbúnir til að hugsa hraðar en hestarnir. Þeir, sem eru fyrir framan, verða að passa upp á hliðin og sinna fyrirstöðu á þverleiðum. Vanir ferðamenn hafa í sér tilfinningu fyrir þessu.
Eftir fyrstu áningu er oft lagt á betri helminginn af flotanum, sérstaklega ef gatan framundan er greið. Þá eru hestarnir orðnir mjúkir og heitir og ferðin sækist greiðar. Hraðinn eykst oft, þegar líður á hæfilega dagleið. Oftast eru hestar þá orðnir rólegir og verða ekki til neinna vandræða þann daginn. En fari svo, að hestur byrji að sperra eyru í áningu, þurfa ferðamennirnir líka að hafa aukinn vara á sér. Menn þurfa að venjast við að lesa á hestana.
Oft þarf að halda niðri hraða á lausu hrossunum um tíma. Góður ferðahraði er ekki meira en 10 kílómetrar á klukkustund. Forreiðin má þó aldrei tefja eftirreiðina, því að þá kemst hún fljótt í hörkuvinnu við að halda aftur af framsæknum hrossum. Þá er betra að gefa eftir og greikka sporið um tíma. Þetta kenndi mér Páll á Kröggólfsstöðum.
Það fylgir þessu, að eftirreiðin má ekki fara svo hratt, að hún ýti lausu hrossunum á forreiðina. Hún þarf að halda bili milli sín og hrossanna og gefa þeim færi á að lesta sig. Hún getur svo þurft að hotta á öftustu hestana einstöku sinnum, ef stórar eyður myndast í lestina.
Stundum eru hestar svo samrýmdir, að þeir fara á taugum, ef félaginn er undir hnakki. Þá er bezt að leyfa lausa hestinum að fylgja hnakkhestinum, en vera ekki eyða orku í að reyna að lemja hann inn í hópinn. Það eru jafnvel til hestar, sem eru viðráðanlegastir, þegar þeir fá að hlaupa á undan forreiðinni. En í stórum dráttum er lestin mikilvægust, því hún kennir hestunum að hlaupa slakir hver á eftir öðrum og láta sér síður detta í hug að fara úr braut.
Harðjaxlana fremst
Hannes Einarsson:
Á kvöldin er ákveðinn brottfarartími daginn eftir, hvenær sé morgunmatur, hvenær viðlegubúnaðurinn þurfi að vera kominn út og hvenær menn skuli vera komnir í hnakkinn. Það eru alltaf einhverjir slugsarar, sem annars tefja fyrir.
Algengasta vandamálið er, að menn þykist endilega þurfa að járna, þegar á að fara af stað. Þess vegna þurfa tímasetningar að vera skýrar. Það er leiðinlegt fyrir hóp, sem er tilbúinn, að þurfa að bíða eftir einum, sem ekki hefur sitt á hreinu.
Mér finnst gott að vera kominn í hnakkinn ekki seinna en klukkan ellefu, ef dagleiðin er ekki óvenjulega löng eða stutt. Mér finnst gott að vera kominn úr hnakknum milli klukkan fimm og sex, miðað við að hafa kvöldmat klukkan sjö. Mér finnst gott að fara átta til tíu kílómetra á hverjum hesti við meðalgóðar aðstæður.
Það er vel þegið, að einhver geti að morgni rakið fyrir fólki fyrirhugaða leið dagsins eftir beztu getu, spáð í hvaða götur verði góðar eða slæmar og hvernig áfangaskipting sé líkleg. Samt verður að gæta að því, að menn viti, að þeir geta alltaf beðið um stopp, ef eitthvað er að, til dæmis hestur orðinn þreyttur, sem kemur oft fyrir, þegar menn koma með óþjálfuð hross í langferð.
Mjög gott er að geta byrjað morguninn, sérstaklega á fyrsta degi, á reiðkafla milli girðinga, meðan hrossin eru að byrja að jafna sig. Í hestaferð koma saman hópar hesta úr ýmsum áttum. Milli þeirra eru oft ýmsar ýfingar og valdabarátta, áður en þau fara að lesta sig almennilega. Alltaf er hætta á, að rekstur springi í upphafi ferðar, og þá er gott að hafa girðingar til að halda að rekstrinum. Einnig þarf að muna eftir pissustoppi fljótlega eftir að farið er af stað að morgni.
Fremst þarf að hafa galvaska reiðmenn og harðjaxla á góðum hestum. Gæta þarf þess, að ekki séu of fáir í forreiðinni, því að sums staðar þarf að fara í fyrirstöðu, sem þýðir að það týnist úr forreiðinni í eftirreiðina. Og svo er það að minnsta kosti í Fáksferðunum, sem ég þekki bezt, að mörg viljug hross í rekstrinum eru framsækin. Á opnum svæðum, til dæmis söndum, er gott að hafa hliðarmenn á rekstrinum.
Oft þarf hafa dálítið fyrir því að ná niður hraðanum, koma lestinni niður á fetgang af og til. Til þess þarf að hafa píska til að veifa framan í frekjuhrossin, sem æða fram. Annars er milliferðin ágætur ferðahraði.
Leiðsögumaður þarf að þekkja leiðina vel eins og lófann á sér og hafa talað við ráðamenn lands, sem farið er um. GPS með góðum punktum er orðið nauðsynlegt hjálpartæki við leiðsögn. Ég er að hugsa um að fá mér svoleiðis tæki og fara að prófa það. NMT símar eru líka mikilvæg öryggistæki, einkum þegar slys ber að höndum, Vasatæki af því tagi virka því miður misjafnlega vel, en ná þó yfirleitt sambandi, ef menn fara upp á hæðir og hóla.
Fararstjóri stýrir ferðinni að öðru leyti og verður að hafa góðan aga, því meiri aga sem hópurinn er stærri. Hann gefur upp áætlaðan tíma í áningu og minnir menn á að draga ekki að skipta um hross og að líta á lausu hrossin sín í hverri einustu áningum, skoða fætur og lyfta hófum á sínum hrossum, ef búið er að ríða á grýttu landi. Gott er, að glöggir menn standi við hlið, þegar hross renna í hólf, og fylgist með fótum allra hrossanna. Hross, sem fer tíu kílómetra á lélegum hóf skeifulausum, getur verið úr leik.
Í áningu þarf að fylgjast vel með hrossunum. Menn hafa hvað eftir annað lent í vandræðum, þegar þeir brjóta þetta boðorð. Menn eiga að mynda jafnan hring og hafa jöfn bil á milli sín. Bezt er að nota band til öryggis. Að öðrum kosti þurfa menn að standa alveg klárir að hrossunum. Frá því að bandið er tekið upp og þangað til menn eru komnir í hnakkinn er sérstaklega hætt við ókyrrð og rási í hrossunum.
Ég hef notað rafmagnsborða til að slá utan um hrossin í áningu, en er að hugsa um að prófa næst kasthjól með línu. Borðinn flækist æði oft og það tekur oft dálítinn tíma að ganga frá honum. Veiðilínan ætti að vera auðveldari.
Fari sem frjálsast
Valdimar K. Jónsson:
Mér finnst bezt að fara seint af stað, seint á tólfta tímanum. Ég tel, að hvíldartími hestanna sé á morgnana, enda leggja þeir sig oft á þeim tíma. Ef óvant fólk er með í ferð og jafnvel þótt svo sé ekki, reyni ég að brýna fyrir mönnum, að þeir, sem eru á viljugari hestunum, séu sem mest í forreið, því að oft grisjast úr þeim hópi í fyrirstöðum á leiðinni. Fólk á hægfara hestum verður þó að vera í eftirreið, því að það örvar hestana, ef þeir óttast að missa af stóðinu. Öfluga forreið þarf líka til að halda aftur af framsæknum hrossum. Písk nota ég ekki, en sé þó, að þeir nýtast til að ógna framsæknum hestum, sem vilja ryðjast gegnum forreiðina.
Stór rekstur hefur tilhneigingu til að skipta sér í léttrækan hóp að framan og hægari hross að aftan. Þá þarf forreiðin að gæta þess að fara ekki of hratt, svo að reksturinn klofni ekki. Við þær aðstæður getur verið gott á krókóttri leið að hafa tvo menn í millireið til að hafa betri yfirsýn og týna síður hrossum úr rekstrinum. Þá þarf líka að gæta þess að ýta ekki of mikið á hæggengu hrossin, að minnsta kosti ekki með óhljóðum og látum, því að það ærir bara hrossin, sem eru fremst í rekstrinum. Bezt er að lausu hestarnir fari sem frjálsast og ráði ferðinni. Þeir lesta sig betur og maður verður bara að taka því, að línan geti teygzt á köflum.
Gott er að glöggur hestamaður sé í eftirreið og fylgist með hópnum. Lausaglamur í skeifum þarf að skoða og laga í næstu áningu. Almennt er gott að huga að skeifum sinna hesta í hverri áningu og að gá að grjóti undir hófum í náttstað. Ef hestur sýnir helti á ferð, þarf auðvitað að huga að því strax. Fyrir brottför að morgni þarf að líta aftur yfir þetta og laga allt, sem athugavert er. Næsta sumar hef ég áhuga á að prófa að hafa litlar 5 km talstöðvar fyrir samband milli forreiðar og eftirreiðar, svo að forreiðin geti stöðvað reksturinn um leið og eftirreiðin sér eða heyrir, að eitthvað hefur farið úrskeiðis, til dæmis skeifa farið undan. Þetta er sérstaklega mikilvægt, þegar reksturinn er langur. Gemsarnir duga skammt á fjöllum.
Ef jeppi er ekki í samfloti með hópnum, bið ég einhvern um að hafa með sér í vasanum band, sem er nógu langt til að ná langleiðina utan um hópinn. Við reynum að ganga þannig frá bandinu, að forreið, þótt fámenn sé, geti verið fljót að stökkva af baki og taka út bandið, ef skyndilega þarf að stöðva reksturinn. Þá þurfa allir að vera samtaka um að raða sér á línuna. Gott er að tveir og tveir séu saman á línunni og skiptist á um að halda og að skipta um hesta.
Ég reyni að brýna fyrir fólki að sleppa ekki hnakkhestinum fyrr en það er búið að ná í næsta hest. Stóðið getur fælzt af óútreiknanlegum ástæðum og horfið út í buskann og þá eru menn illa settir hestlausir. Einnig vil ég, að fólk, sem ætlar að skipta um hesta, geri það tímanlega, svo að ekki verði tafir, þegar hópurinn ætlar að fara af stað aftur. Gott er að hafa stallmúla á styggum hestum, svo að fljótara sé að ná þeim í áningu. Það er líka auðveldara að taka strokugjarna hesta í taum, ef þeir bera múl.
10 km á hestinn
Marinó Pétur Sigurpálsson og Guðbrandur Kjartansson:
Áður en að ferðalaginu sjálfu kemur höldum við undirbúningsfundi, þar sem farið er yfir ýmis minnisatriði og nýliðum sagt til um, hvernig þeir geti búið sig í ferðina. Ferðafélagarnir mega helzt ekki vera færri en fimm, svo að fjórir geti verið á bandinu í áningu meðan einn skiptir um hest. Þeir mega ekki heldur verða of margir, því að þá verður ferðalagið of þungt í vöfum. Gott er, að sem flestir séu vanir og þekkist helzt.
Ákveða þarf leiðina og náttstaði mjög snemma, því að panta þarf skála á haustin, að minnsta kosti á vinsælum leiðum á borð við Kjöl. Það er óþægilegt, ef einn skálinn er alveg upptekinn í langri röð skála. Þá getur þurft að færa alla ferðina og allar gistingar um einn dag til að hafa skála allar nætur. Úr þessu getur orðið hálfgert púsluspil.
Við höfum oft farið áður á bílum og reynt að kanna aðstæður á nýjum slóðum. Einu sinni áðum við nálægt Bjarnalækjarbotnum og skiptum um hesta. Þegar við vorum búnir að ríða 100 metra í viðbót, komum við að skálanum. Ef við hefðum kannað aðstæður áður, hefðum við getað haft þetta einfaldra og farið beint í réttina við skálann.
Áfengi er alveg skilyrðislaust bannað á daginn. Flest kvöld er farið snemma að sofa, en eitt kvöld í ferðinni er eins konar skemmtikvöld með fínni mat. Venjulega er það kvöldið fyrir frídag, sem einnig er fastur liður hjá okkur í þessum hefðbundnu tveggja vikna ferðum okkar.
Morgunmatur hjá okkur er oftast um níuleytið. Yfirleitt förum við af stað um hádegið, ef dagleið er hæfileg. Við höfum tekið eftir, að hrossin fara að sofa um tíu-ellefu á morgnana. Við brottför er skipt í forreið og eftirreið og þess gætt, að einhverjir séu vel ríðandi í forreið.
Áður fyrr fórum við stundum langar dagleiðir, en hin síðari ár höfum við ekki viljað fara meira en 40 km á dag og nota hvern hest að meðaltali 10 km áfanga, ef aðstæður leyfa. Það eru fjórir hestar á meðaldegi.
Við erum sjálfir með fleiri hesta, oft sex á mann, þannig að hestarnir fá hvíldardaga á milli. Það þýðir, að okkur er óhætt að beita hestunum töluvert með tætingi og sprettum, ef við þurfum á því að halda. Þeir fá þá frí daginn eftir. Það er ekkert gaman að ferðast, ef hestar verða þreyttir.
Í áningum verða forreiðarmenn að dreifa sér og standa fyrir lausu hrossunum meðan verið er að loka hringnum með merkilínu. Þegar búið er að loka, fara einn eða tveir í einu með hestinn sinn inn í hringinn til að skipta um hest, en hinir halda uppi línunni. Við erum með tvær-þrjár slíkar rúllur, sem hver er 30-40 metrar og fer sáralítið fyrir í vasa. Þessar línur slitna við álag, sem er nauðsynlegt. Einu sinni var maður með veiðilínu í ferð með okkur og það gekk ekki eins vel, því að línan slitnaði ekki og maðurinn skarst.
Til að venja ung hross við línuna, sláum við upp rafmagnslínu með straumi í fyrsta næturstað, þótt þar sé girðing fyrir. Ef eitthvert hrossið fær straum í sig, passar allur hópurinn sig út ferðina.
Einn hefur það hlutverk að ríða aftastur og fylgjast með, að allt sé í lagi. Að öðru leyti þarf eftirreiðin að gæta þess að ýta ekki of skart á lausu hrossin. Veðráttan, landið og lausu hrossin ráða mest ferðinni.
Við lítum mest á fætur og skeifur á kvöldin, en eitthvað líka að morgni. Hver sér um að fylgjast með sínum hestum, bæði í áningu og náttstað. Af og til tökum við upp löpp. Eftirreiðin fylgist líka með þessu og sjálfir förum við stundum úr götu, þar sem góð aðstaða er til að fylgjast með fótunum, þegar flotinn siglir framhjá. Þetta sést allt vel, þegar lausu hrossin eru farin að lesta sig.
Við höfum lítið notað leiðsögumenn, þegar við höfum farið ókunnar slóðir, en oft fengið lýsingar staðkunnugra. Ég (M) er iðinn við að afla upplýsinga um leiðirnar og hef þær að mestu leyti í höfðinu, þegar til kastanna kemur.
Auðvelt er að velja vöð yfir bergvatnsár. Maður sér nokkurn veginn, hvar er grynnst. Jökulárnar eru erfiðari, en vöðin eru oft merkt með vörðum eða stikum. Ef svo er ekki, fer maður eftir tilfinningu, sem er byggð á reynslu. Í einstöku tilvikum höfum við fengið leiðsögumann á vað, til dæmis Árna í Þjórsárholti til að hjálpa okkur yfir Þjórsá við Arnarfell.
Jónas Kristjánsson skráði
Eiðfaxi 1.tbl. 2004