44. Írland – Cashel Rock

Borgarrölt

Cashel

Héðan förum við N8 til Cashel, beygjum til vinstri inn í aðalgötu þorpsins og þaðan til vinstri inn um hlið og heimreið að gamalli biskupshöll.

Cashel Palace Hotel var reist 1730 í palladískum endurreisnarstíl sem biskupssetur, en er nú virðulegt og næstum þreytulegt hótel með forngripum og arineldi, svo og fögrum garði að húsabaki.

Cashel Rock, Írland

Cashel Rock

Cashel Rock

Frá hótelinu göngum við gegnum hótelgarðinn eftir svonefndum biskupsstíg 7 mínútna leið upp að Cashel-kletti, þar sem eru merkar fornminjar.

Kletturinn var aðsetur konunga Munster-héraðs 370-1101 og var þá svipaður helgistaður og áðurnefnd Tara fyrir norðan Dublin.
Hér er heilagur Patrekur sagður hafa skírt Ængus konung 450. Á 12. öld varð kletturinn að dómkirkjusetri og hélzt svo til 1749. Inchiguin lávarður brenndi 3000 borgarbúa í kirkjunni 1647.

Við förum upp á klettinn um safn, sem er í hlíðinni. Safnið er í 15. aldar prestssetri. Aftan við það er svefnskáli frá sama tíma.

Andspænis svefnskálanum er elzti hluti fornminjanna, Cormac’s Chapel frá 1127-1134, byggður í rómönskum stíl, eitt kirkjuskip með kór og tveimur hliðarturnum.

Yfir kapellu gnæfir sjálf dómkirkjan, illa leikin eftir áðurnefndan bruna. Hún er að mestu leyti frá 13. öld, í gotneskum stíl, einföld krosskirkja án hliðarganga, með háum sverðgluggum og öflugum miðturni.

Í vesturenda kirkjuskipsins er kastalaturn frá 1450, upphaflega erkibiskupssetur á umrótatíma.

Aftan við norðurþverskip kirkjunnar er sívaliturn frá 12. öld, svipaður þeim, sem írskir munkar reistu víða á Írlandi til varnar gegn víkingum. Hann er heill alveg upp í keiluþak úr steinhellum.

Aðgangur £1,50.

Næstu skref