47. Írland – Waterford

Borgarrölt
Reginald's Tower í Waterford, Írland

Reginald’s Tower í Waterford

Waterford

Áfram ökum við R700 fallega leið til New Ross og þaðan N25 til Waterford. Við stönzum á bílastæði við hafnarbakkann, andspænis Granville-hóteli.

Við göngum hafnarbakkagötuna frá hótelinu að umferðarhorninu við Tower-hótel. Þar er sögufrægur sívaliturn frá víkingatíma.

Reginald’s Tower var reistur 1003 af dönskum víkingi, Rögnvaldi Sigtryggssyni. Turninn var upphaflega varnarvirki, en varð síðar myntsláttuverkstæði, vopnabirgðastöð og síðast loftvarnabyrgi. Nú er þar borgarsögusafn. Aðgangur £0,50.

Gaman er að rölta um göngugötur miðbæjarins að baki hafnarbakkanum.

Waterford er þekkt fyrir glerverksmiðjurnar Waterford Crystal, 2,5 km. sunnan við bæinn á N25.

Main Street, Wexford, Írland

Main Street, Wexford

Wexford

Frá Waterford förum við N25 til baka til New Ross og
þaðan áfram sama veg til Wexford, þar sem við stönzum í nágrenni aðalgötunnar, Main Street.

Wexford er gömul borg þröngra gatna. Main Street ber þess merki, enda er hún nú orðin að göngugötu. Hún er helzta aðdráttarafl bæjarins. Framhliðar margra verzlana við hana eru í gömlum 19. aldar stíl.

Avondale

Við förum N11 frá Wexford til Arklow og þaðan R747 og R752 til Avondale.

Avondale Forest Park er verndaður skógur í brattri fjallshlíð við ána Avonmore. Um skóginn liggja skemmtilegar gönguleiðir frá einum og upp í sex kílómetra að lengd

Næstu skref