Rio della Misericordia
Að þessu sinni göngum við um 600 metra eftir Strada Nova. Síðan beygjum við til hægri í Campo di Santa Fosca og áfram yfir brú og eftir Calle Zancani um brú til Campo San Marziali og áfram upp á brú yfir Rio della Misericordia.
Við erum hér komin að þremur tiltölulega beinum og breiðum skurðum, sem liggja langsum eftir norðanverðu Cannaregio-hverfinu. Rio della Misericordia er hinn syðsti, síðan kemur Rio della Sensa og loks Rio Madonna del’Orto, sem raunar heitir ýmsum nöfnum.
Við Rio della Sensa er torgið Campo dei Mori með frægri styttu, sem kölluð er Signor Antonio Rioba, með gamansömu málmnefi. Þar á skurðbakkanum Fondamenta dei Mori stendur enn íbúðarhús málarans Tintoretto.
Á norðurbakka skurðanna þriggja eru yfirleitt greiðar gönguleiðir, sem er óvenjulegt í Feneyjum. Þessi borgarhluti er lítt snertur af ferðamennsku. Litlar verzlanir og verkstæði eru á stangli á jarðhæðum, en að öðru leyti er þetta íbúðahverfi. Sólin nær oft að skína lengi á stéttarnar, þar sem eftirlaunamenn standa gjarna og dorga í skurðunum.
Við spókum okkur góða stund á bökkum skurðanna þriggja.