5. Dublin – Neary’s

Borgarrölt
Neary's, bar, Dublin 2

Neary’s

Neary’s

Leikhúskrá miðbæjarins er auðvitað að baki Gaiety leikhússins. Leikarainngangur Gaiety og bakinngangur Neary’s standast nokkurn veginn á, en aðalinngangur kráarinnar er við þvergötu út frá Grafton Street.

Kráin er tvískipt, fremur lítil, með stórum speglum. Sérkennilegir gasljósastaurar úr smíðajárni eru á bleiku marmara-barborði. Fínt teppi er á gólfi og þykkar setur í stólum, enda er þetta ekki slordónastaður.

Í hópi viðskiptavina er slæðingur af leikurum og tónlistarmönnum innan um ferðamennina. Peter O’Toole er sagður halda til hér, þegar hann er í Dublin.

(Neary’s, 1 Chatham Street, C2)

Horseshoe

Frægasti hótelbar borgarinnar er Horseshoe Bar í austurenda jarðhæðar Shelbourne-hótels, afar lítill og þétt skipaður.

Með útveggjum eru leðursófar við hringlaga tréborð með öldubrjóti og í miðjunni er skeifulaga barborð með fínum barstólum. Hátt er til lofts og lítið um skreytingar, en mikið um spegla.

Hingað koma vel stæðir ferðamenn, einkum Bandaríkjamenn, því að hér eru löguð hanastél; svo og skartbúið fólk, sem kemur hingað á Benzum og Jagúörum úr úthverfunum.

(The Horseshoe Bar, The Shelbourne Hotel, St Stephen’s Green North, D2)

Foley’s

Söngkrá á uppleið við Merrion Row – Baggot Street kráarásinn reisir íslenzka fánann að húni, þegar tekur að hausta og mörlandar komast í innkaupastuð. Það er Foley’s Lounge Bar, eins konar millistig kráar og veitingasalar.

Þetta er frekar ánægjulegur staður, bjartur og rúmgóður, með teppi á gólfi, imbakassa og málverkasýningu á veggjum og voldugri klukku við endavegg. Brjóstmyndir eru af myndarlegum herrum, en engir eru þeir íslenzkir enn.

Írsk þjóðlög eru leikin og sungin hér öll virk kvöld vikunnar og í hádegi sunnudags, en á sunnudagskvöldum er djassað.

(Foley’s Lounge Bar, Merrion Row, D2)

O’Donoghue’s

Andspænis Foley’s við Merrion Row er ein frægasta söngkrá Írlands, O’Donoghue’s, skuggaleg krá, sem hefur írskar ballöður að sérgrein.

Kráin er lítil og kraðaksleg með rauðum og grænum neonljósum ofan við flöskur og glös í barvegg, þar sem líka eru peningaseðlar frá öllum heimshornum. Á veggjum eru gamlir auglýsingaspeglar.

Kráin hefur verið í fararbroddi endurreisnar írsku ballöðunnar. Gestir koma með gítarana sína, enda er tónlistin ekki skipulögð, heldur kemur upp úr grasrótinni. Hér byrjuðu Dubliners frægðargöngu sína um heimsbyggðina.

(O’Donoghue’s, 15 Merrion Row, D2)

Næstu skref