Foro Romano
Við förum til baka meðfram Via dei Fori Imperiali, eftir göngustígnum Via della Salara Vecchia, til eina inngangsins í Forum Romanum.
Stærsta torg lýðveldistíma hinnar fornu borgar var Forum Romanum. Það var upprunalega verzlunartorg með múrsteinshúsum, en varð síðan marmaraslegið stjórnmála- og trúmálatorg fram að þjóðflutningum miðalda, þegar Rómarveldi hrundi. Af frágangi eftir fornleifagröft getum við gert okkur í hugarlund skipan merkra bygginga og gatna á þessu svæði, ef við göngum um það og gefum okkur góðan tíma.
Antonio e Faustina
Þegar við göngum frá innganginum niður á torgið, er hof keisarahjónanna Antoniusar og Faustinu á vinstri hönd og grunnur Emilíubyrðu á hægri hönd. Hofið var reist á vegum Antoniusar Piusar árið 141. Súlur framhliðarinnar eru upprunalegir einsteinungar, svo og tröppurnar upp að hofinu. Framhliðin í hlaðstíl er að öðru leyti frá 1602, þegar hofinu hafði verið breytt í kirkju.
Basilica Aemilia, Emilíubyrða, var reist 179 f.Kr. og bar nafn ættarinnar, sem sá um viðhald hennar. Þær leifar, sem nú sjást, eru frá 1. öld. Þarna var verzlað og sættir gerðar.
Meðfram Emilíubyrðu var helgibrautin Via Sacra, þar sem fram fóru sigurgöngur herforingja.