Þegar við göngum vinstra megin hallar inn í Þjóðþingsport og þaðan til vinstri inn í rósagarð Konunglegu bókhlöðunnar, fækkar ekki gömlum slóðum Íslendinga. Að baki okkur, tengt höllinni, er Leyndarskjalasafnið, sem var í umsjá prófessoranna Árna Magnússonar 1715-1719, Gríms Thorkelín 1791-1829 og Finns Magnússonar 1829-1847.
Vinstra megin er Próvíanthúsið með Landmælingastofnun danska herforingjaráðsins, sem gerði út ótal liðsforingjaefni til vandaðrar kortagerðar af Íslandi. Í fjarlægari enda þess var Árnasafn til húsa 1957-1981 undir forsjá Jóns Helgasonar prófessors. Það er nú flutt út á Amákur.
Fyrir enda garðsins er svo Konunglega bókhlaðan, þar sem Sigfús Blöndal orðabókarhöfundur var safnvörður og Jón Eiríksson forstöðumaður. Þar eru geymd merk bréfasöfn Íslendinga, svo sem Finns Jónssonar, Þorvaldar Thoroddsen og Boga Melsted. Ennfremur eru þar ritgerðir um Ísland frá 18. öld.
Fjórða hliðin að garðinum er Týhúsið, þar sem margir Íslendingar þjónuðu áður fyrr í lífverði konungs. Til mestra metorða komust Magnús Arason verkfræði-lautinant á fyrri hluta 18. aldar og Ketill Jónsson lautinant, sem féll í orrustu 1811 undir tignarheitinu “von Melsted”.
Hér þjónuðu þrír Íslendingar, sem áttu það sameiginlegt að hafa komizt alla leið til Indlands á skipum hans hátignar og að hafa ritað ævisögur sínar. Kunnastur þeirra er Jón Ólafsson Indíafari, en hinir eru Eiríkur Björnsson og Árni Magnússon frá Geitastekk