5. Madrid

Borgarrölt
Boqueria, Barcelona

Boqueria, Barcelona

Veitingar

Þar sem Spánverjar borða tvisvar á dag og á undarlegustu tímum, þurfa þeir snarl inn á milli. Það kalla þeir tapas, sem þeir úða í sig á vín- og snarlbörum milli klukkan 13 og 14 á daginn og milli klukkan 20 og 23 á kvöldin, meðan þeir eru að bíða eftir, að tímabært sé að fara í veitingahús.

Casa Bótín, restaurant, Madrid

Casa Bótín, Madrid

Tapas-barir eru alveg rosalega fjörlegir og hávaðasamir staðir. Snarlið er oft djúpsteikt og fitandi, en sumt er gott, svo sem smokkfiskhringir (calamares), rauðar smápylsur, skarpkryddaðar og áfengisvættar (chorizo), rækjur (gambas og cigalas), skeljar (almejas), ansjósur (anchoas), sniglar (caracoles), ostur (manchego) og hráskinka (jamón serrano).

Þótt Madrid sé inni í miðju landi, er borgin fræg fyrir góða sjávarrétti. Aflinn kemur í flugi á nóttunni frá sjávarplássum við Miðjarðarhaf og Atlantshaf. Kokkarnir fara sjálfir snemma á morgnana á fiskmarkaðinn til innkaupa.

Matreiðslan er svo sem ekki betri en á Íslandi, en tegundirnar eru miklu fleiri. Þar eru ostrur (ostras) og ótal skelfiskar (almejas), margar tegundir af rækjum (gambas, cigalas, langostas, langostinos), humar (bogavante), fiskar á borð við þykkvalúru (rodaballo) og kólguflekk (besugo) og hafurriða (merluza).

Yfirleitt borgar sig að biðja um einfalda matreiðslu, til dæmis grillun (a la parilla) eða ofnbökun (al horno). Ekki má heldur gleyma saltfiskinum (bacalao), sem er á boðstólum í flestum veitingastofum, þar á meðal hinum beztu, og er langtum betri en við þekkjum heima á Íslandi.

Valencia market

Valencia markaðurinn

Gagnstætt því, sem margir halda, er hægt að fá mjög góða nautasteik (buey) víðast hvar á Spáni. Ennfremur er þar fjölbreytni í ýmissi villibráð, svo sem dádýrum (corzo og venado), akurhænum (perdiz) og orrum (codorniz).

Um slíkar steikur gildir hið sama og um aðra matreiðslu á Spáni, að hún er bezt sem einföldust, grillun (a la parilla) eða ofnsteiking (asado). Hrásteiking er bezt (poco hecho), fremur en miðlungi steikt (regular) eða mjög steikt (muy hecho).

Spánverjar eru mikið fyrir hrísgrjónagrauta, -vellinga og súpur með kanil (arroz con leche). Eftirréttir af því tagi eru í boði víðast hvar og eru mun frumlegri en við þekkjum á Íslandi. Steingrímur Hermannsson ætti að prófa það.

Eitt hið bezta við veitingamennsku í Madrid og raunar víðast hvar á Spáni er kaffið, sem kemur sterkt og gott úr ítölskum kaffivélum. Spánverjar drekka það svart, (café solo). Á morgnana fá þeir sér það stundum mjólkurblandað, (café con leche).

Önnur sérgrein í Madrid eru vindlarnir frá rómönsku Ameríku, þar á meðal frá Kúbu. Hvergi hef ég séð annað eins úrval af allra fínustu vindlum heims, né á jafnlágu verði og á Spáni.

Og þá hefjum við gönguna.

Næstu skref