5. Madrid – austurbær – Prado

Borgarrölt
Goya, Prado, Madrid 2

Nakta Maja, Goya

Museo del Prado

Erfitt er að veita leiðsögn um Prado, ekki bara af því að safnið er stórt, heldur einnig af því að alltaf er verið að færa til hluti og leiðbeiningar eru einstaklega lélegar. Reiknað er með, að málverk Goya verði flutt yfir torgið Canovas del Castillo inn í Palacio de Villahermosa, en síðast, þegar ég vissi til, voru þau í suðurenda Prado, á tveimur hæðum. Bezt er að nota þann inngang, andspænis grasgarðinum, því að oft eru biðraðir við aðalinnganginn á miðri vesturhlið safnsins.

Goya, Prado, Madrid 3

Aftaka uppreisnarmanna, Goya

El Greco, Prado, Madrid

Aðalsmaður, El Greco

Mörg frægustu málverk Goya hafa til skamms tíma verið varðveitt hér. Þar á meðal eru málverkin af Maju í fötum (nr. 741) og nöktu Maju (nr. 742); af Satúrnusi að éta son sinn (nr. 763); og af lífláti uppreisnarmanna í Madrid 3. maí 1808 (nr. 749). Málverk Goya er í sölum 66-68, 19-23 og 32-38.

Hér er líka mikið af málverkum eftir El Greco. Þau eru miðsvæðis á annarri hæð, í sölum 8b-10b. Þar á meðal er aðalsmaður með hönd við hjartastað (nr. 809) og Lotning fjárhirðanna (nr. 2988).

Ekki er síður El Bosco eða Hieronymus Bosch sjáanlegur í miklu úrvali. Hans myndir eru í sölum 40-44 á efri hæð. Þar á meðal eru lotning vitringanna (nr. 2048) og gleðigarðurinn (nr. 2823).

El Bosco, Prado, Madrid

Gleðigarðurinn, El Bosco

Velázques, Prado, Madrid

Konungsbörnin, Velázques

Eftir Raphael má nefna myndina af rauðklædda kardínálanum (nr. 299) í vesturenda efri hæðar og eftir Velázquez má nefna myndina af konungsbörnunun (nr. 1174) í miðsal efri hæðar.

Eftir Raphael má nefna myndina af rauðklædda kardínálanum (nr. 299) í vesturenda efri hæðar og eftir Velázquez má nefna myndina af konungsbörnunun (nr. 1174) í miðsal efri hæðar.

Þá má ekki gleyma nöktu jússunum hans Rúbens, sem þekja fermetra eftir fermetra í safninu.
Allt eru þetta meðal merkustu málverka heims, kunn úr listaverkabókum. Prado er eitt af helztu söfnum gamallar listar í heiminum, við hlið Louvre í París, Uffizi í Flórens og National Gallery í London.

El Greco, Prado, Madrid 2

Lotning fjárhirðanna, El Greco

Eitt frægasta verk safnsins er þó ekki hér í húsinu, heldur í sérstöku húsi í nágrenninu, í Casón del Buen Retiro. Það er Guernica eftir Picasso, ef til vill frægasta málverk aldarinnar. Það lýsir afleiðingum þýzkra loftárása á borg í Baskalandi í borgarastyrjöldinni 1936-1939. Hann málaði það fyrir lýðveldisstjórnina, sem Franco hrakti frá völdum. Heimkoma málverksins til Spánar varð tákn fyrir sigur lýðræðis. Til að komast þangað er gengið upp brekkuna norðan við Prado, alla leið að Retiro-garði.

Við að skoða öll þessi listaverk, sem meira eða minna eru úr eign Spánarkonunga, sker í augun, hvað mikið er af hrottalegum og ofsafengnum málverkum í samanburði við önnur söfn af þessu tagi. Tortíming, dauði og djöflar hafa greinilega verið hugleikin umþóttunarefni sumra hinna rammkaþólsku Habsborgara, sem réðu fyrir Spáni.

Næstu skref