Plaza Mayor
Þetta er hitt aðaltorgið í bænum, notalegt torg, laust við bílaumferð, kjörinn staður til að setjast niður á útikaffihúsi. Þetta er rétthyrnt torg í formföstum stíl, byggt í upphafi 17. aldar. Öll húsin við torgið eru í sama stíl, þrjár hæðir og með samtals 114 súlum, þar sem hægt er að ganga í skugga umhverfis torgið. Stytta af Filipusi III er á miðju torgi, svo og skarar af dúfum. Níu undirgöng liggja inn á torgið, sem að öðru leyti er lokað umheiminum.
Plaza Mayor var áður helzta torg borgarinnar. Þar voru trúvillingar dæmdir og teknir af lífi, þar var nautaat háð og kóngar krýndir. Nú er þetta miðstöð ferðamanna í Madrid, en staðarmenn gera sig þar einnig heimakomna. Skrifstofa ferðamála er á nr. 3.
Skemmtilegast er á Plaza Mayor á sunnudagsmorgnum, þegar þar er frímerkja- og myntsafnaramarkaður. Þangað koma menn með albúmin sín til að skiptast á frímerkjum.
Ef við förum til vesturs út um undirgöngin í norðvesturhorni torgsins, framhjá snarlbarnum Mesón, og beygjum síðan til vinstri, komum við að fallegum og skemmtilegum matvælamarkaði miðbæjarins við 17. aldar torgið Plaza San Miguel. Í undirgöngunum til norðurs úr sama horni Plaza Mayor er veitingastaðurinn Toja.
Plaza Santa Ana
Við förum hins vegar til austurs út um undirgöngin í suðausturhorni torgsins og göngum framhjá utanríkisráðuneyti Spánar eftir götunum Gerona og Bolsa, unz við komum að torgunum Plaza del Ángel og Plaza Santa Ana, þar sem hótelið Victoria gnæfir hæst. Á þessum slóðum eru flestir barir og kaffihús í borginni, miðað við flatarmál, þar á meðal Café Central, Cerveceria Alemana, Cuevas de Sésame og La Trucha. Hér er líka veitingahúsið El Cenador del Prado.
Við göngum svo frá Santa Ana norður Principe, unz við komum að götunni San Jerónimo, þar sem við beygjum til vinstri til Plaza Puerta del Sol, þar sem við hófum þessa gönguferð um gamla miðbæinn í Madrid.