Broadway
Leikhúshverfið á Manhattan er kennt við Broadway, sem sker hverfið sundur að austanverðu. Á þessu svæði í kringum Times Square eru 42 leikhús. Þetta er mesta leikhússvæði heims, næst á undan Covent Garden svæðinu í London. Í heila öld hefur það verið þungamiðja bandarískrar leiklistar. Þar eru beztu leikararnir, leikstjórarnir og gagnrýnendurnir. Og þar eru flestir áhorfendurnir.
Á síðari árum hefur Broadway vikið fyrir Covent Garden með þeim hætti, að sífellt er meira um, að verk, sem fyrst slá í gegn í London, séu síðan flutt yfir hafið til New York. Einnig er áberandi, hvernig dýrir söngleikir hafa orðið sífellt fyrirferðarmeiri á Broadway. Miðaverð er orðið þar mjög hátt, oft um USD 45. En vinnubrögð eru alltaf jafnvönduð á leiksviðinu, jafnvel í gamanleik á borð við Blúndur og blásýru, sem við sáum þar síðast.
Til að komast að raun um, hvað er á dagskrá í leikhúsunum 42, er bezt að skoða skrána í vikuritinu New York. Á miðju Father Duffy Square, sem er norðurendi Times Square, er TKTS, þar sem hægt er að fá leikhúsmiða fyrir hálfvirði á sýningardegi. Þar eru oft langar biðraðir. Nánari upplýsingar fást í síma 354 5800. Auk þess eru púrtnerar hótela lagnir við að útvega miða að hverju sem er
Off Broadway
Nútímaleiklist er meira stunduð í því, sem kallað er Off Broadway, um 200 leikhúsum úti um allan bæ, flestum þó í Greenwich Village. Þar eða í London eru frumflutt verk, sem síðar eru tekin upp á Broadway. Þessi þróun hefur nú staðið í tæpa fjóra áratugi. Við sáum síðast söngleikinn Angry Housewives í Minetta Lane leikhúsinu, frábæra sýningu aðeins átta leikara.
Í vikuritunum New York og Village Voice má sjá, hvað helzt er á boðstólum í Off Broadway. Annars er sú leiklist orðin svo sígild, að farið er að tala um Off Off Broadway sem staðinn, þar sem hlutirnir gerist.