Empire State
Auðvelt er að rata áfram, því að stefnan leiðir okkur eftir 5th Avenue endilangri, í strætó eða taxa. Við hefjum ferðina syðst, í Empire State Building, að morgni dags, þegar skyggni er líklegt til að vera hagstæðast.
Einu sinni var þetta hæsta hús í heimi og síðast, þegar við vissum, enn hið þriðja hæsta. Turninn hefur oft verið notaður sem tákn borgarinnar, enda er hann stórfenglegt og virðulegt dæmi um byggingarlist skýjakljúfanna.
Tvær lyftur flytja okkur upp á 86. hæð, þar sem er opið útsýnissvæði, og hin þriðja upp á 102. hæð, með lokuðu útsýnissvæði, sérstaklega skemmtilegu að kvöldlagi. Áður en aðgangseyrir er greiddur er skynsamlegt að líta á töfluna, þar sem sagt er frá skyggni líðandi stundar. Við beztu aðstæður að degi til má sjá yfir 70 kílómetra í allar áttir.
Í anddyrinu er sýning á vegum Guinnes Book of World Records.