5. Páfaríki – Péturskirkja

Borgarrölt
Péturskirkja, Roma 2

Péturskirkja

San Pietro

Hér var áður Péturskirkja hin fyrri, reist á dögum Constantinusar mikla á fyrri hluta 4. aldar, sennilega 326, og var lengi ein af höfuðkirkjum Rómar, en ekki páfakirkja. Hún var reist hér, af því að á þessum stað var Pétur postuli sagður hafa verið krossfestur á dögum Neros keisara.

Péturskirkja, Roma 3

Hvolf Péturskirkju

Péturskirkja hin síðari var í upphafi krosskirkja, jafnarma eins og grískur kross, að mestu hönnuð og reist af Michelangelo 1547-1564, en var síðan lengd í byrðu af Maderno og Bernini á fyrri hluta sautjándu aldar, þannig að grunnmynd hennar varð eins og latneskur kross. Samtals tók bygging hennar meira en hálfa aðra öld, allt frá því er Bramante gerði fyrstu teikningarnar 1506 og til þess er Bernini lauk við kirkjutorgið 1667. Kirkjan er byggð í endurreisnarstíl, en skreytt í hlaðstíl.

Sporöskjulaga göngin með fjórum súlnaröðum umhverfis Piazza San Pietro eru eftir Bernini, reist 1656-1667. Markmið sporöskjunnar var að draga athyglina að framhlið kirkjunnar og búa til eins konar náðarfaðm fyrir hina trúuðu, er þeir hlýða á boðskap páfa. Ofan á sporöskjunni eru 140 englastyttur. Í miðju torgsins er einsteinungur frá Heliopolis í Egyptalandi, höggvinn á 1. öld f. Kr., fluttur til Rómar á dögum Caligula. Brunnarnir á torginu eru eftir Maderno, hægra megin, og Bernini, vinstra megin.

Andspænis okkur gnæfir sviplítil framhlið kirkjunnar, hönnuð af Carlo Maderno og reist 1607-1614. Styttur Péturs og Páls postula standa á tröppunum framan við kirkjuna.

Héðan frá að sjá skyggir framhliðin að verulegu leyti á meistaraverk Michelangelos, kirkjukúpulinn. Á brúninni standa styttur Krists og allra lærisveinanna nema Péturs sjálfs. Páfasvalirnar eru neðan við gaflaðsþríhyrninginn.

Pieta, Péturskirkja, Roma

Pieta, Péturskirkja

Sjálf kirkjan er ein hin stærsta í heimi, með 450 styttum, 500 súlum og 50 ölturum, ríkulega skreytt marmara og listaverkum, talin rúma 60.000 manns í einu. Hún er rúmlega 200 metra löng, með 140 metra háu og
40 metra breiðu hvolfþaki yfir krossmiðju.

Hvolfþakið er eins konar stækkuð mynd af hvolfþaki Pantheons. Giacomo della Porta lauk við þakið og gerði það heldur léttara útlits en Michelangelo hafði gert ráð fyrir. Hvolfið er alsett steinfellumyndum.

Hægra megin við innganginn er Pietà, höfuðafrek Michelangelos, höggvin 1499-1500 og sýnir sorg Maríu meyjar við lát Krists.

Péturskirkja, Roma 4

Péturskirkja

Við kórbak er afar skrautlegur Pétursstóll í hlaðstíl, hannaður af Bernini. Undir hvolfþakinu er hásæti með 29 metra háum og hrikalegum bronshimni, sem Bernini hannaði í hlaðstíl. Bronsinu lét páfinn Urban VIII ræna úr Pantheon.

Undir hásætinu er grafhýsi Péturs postula. Framan við það hægra megin er bronsstytta af Jupiter, sem í fornöld stóð á Capitolum, en er nú sögð af Pétri postula, með fægðan fót af kossum trúaðra, sem vita ekki, að þetta er heiðinn guð.

Um norðaustursúluna undir hvolfþakinu er gengið niður í grafarhvelfingar páfa og um leifar gömlu Péturskirkju.

Úr anddyri kirkjunnar er hægra megin farin leiðin til lyftunnar, sem flytur fólk upp á kirkjuþak. Gott útsýni er ofan af framhliðinni, en frábært verður það, ef fólk leggur á sig að klífa tröppurnar af þakinu upp á hvolfþakið.

Frá suðurhlið kirkjunnar er gengið niður í fornan kirkjugarð frá 1.-4. öld, sem grafinn hefur verið út. Panta þarf fyrirfram, ef fólk vill fara þangað niður.

Hér lýkur göngu um Páfaríki.

Næstu skref