Pasargade
Milli Kerman og Shiraz er löng dagleið, 450 kílómetrar. Nærri Shiraz komum við að minjum hins gamla Persaveldis, Pasargade og Persepolis.
Grafhýsi Kýrusar Persakeisara er á víðum völlum í Pasargade. Það er efst á stallapíramíða og er enn næsta heillegt.
Kýrus mikli var hinn fyrsti frægra keisara Persa, uppi um 600 f.Kr. Hann reisti fyrsta heimsveldi mannkynssögunnar, sem náði frá Miðjarðarhafi um Mesópótamíu og Persíu til Afganistan. Hann lagði grunn að persneskri stjórnskipan í Vestur-Asíu og frelsaði gyðinga úr útlegð í Babýloníu. Á sívalningi Kýrusar eru skráð fyrirmæli hans, þar sem meðal annars er gert ráð fyrir ýmsum mannréttindum.
Kýrus mikli var svo frægur, að hann á sérstakan sess í íslenzkum rímum. Séra Jakob Jónsson skráði um þær ritgerð, sem var þýdd á ensku og barst stjórnvöldum í Íran, sem voru að undirbúa 2500 ára afmæli Persaveldis. Var séra Jakob boðið í afmælið 1971 og flutti hann þar erindi um rímur Kýrusar mikla.