5. Santiago de Compostela

Borgarrölt
Reyes Católicos, hótel, Compostella 2

Aðalhótelið í Santiago di Compostela, Parador Reyes Católicos, við dómkirkjutorgið

Galicia

Galicia er gamalt Keltaland eins og nafnið sýnir, sæbarið, fátækt og afskekkt eins og Bretagne og Cornwall. Grafnir hafa verið upp 5000 kastalar og virki kelta á þessu svæði. Tungumálið í nútímanum er þó ekki keltneskt, heldur rómanskt, milli spönsku og portúgölsku. Hins vegar eru sekkjapípurnar greinilega skyldar hinum brezku.

Matreiðslan í Galisíu er dálítið sérstök. Frægur er Galisíugrautur, búinn til úr baunum, kartöflum og kjötbitum, Cocido gallego. Einnig Galisíusúpa, búin til úr kartöflum, káli og baunum, Caldo gallego. Þetta eru réttir, sem menn eiga fremur von á í köldum löndum norður í höfum. Empanadas heita pæ, sem eru fylltar kjöti eða sjávarréttum.

Santiago de Compostela

Helzti ferðamannastaður í Galiciu er borgin Santiago de Compostela, sem var á miðöldum jafn eftirsótt takmark pílagríma og sjálf Róma. Þá fóru upp undir milljón pílagrímar árlega til Santiago de Compostela til að komast í návígi við leifar Jakobs postula. Reistar voru miklar pílagrímakirkjur í rómönskum stíl á leiðinni frá Frakklandi til Compostela.

Fyrsta leiðsögubók ferðamanna í mannkynssögunni var skrifuð um þessa leið árið 1130. Enn þann dag í dag eru farnar hópferðir suður Frakkland og eftir norðurströnd Spánar til að feta í fótspor forfeðra okkar í stétt pílagríma.

Plaza del Obradorio, Compostella

Plaza del Obradorio, andspænis dómkirkjunni

Miðbærinn í Santiago de Compostela er að miklu leyti frá ofanverðri 12. öld og hefur að geyma beztu minjar frá rómönskum tíma byggingarlistar á Spáni. Dómkirkjan sjálf er höfuðmannvirkið frá þeim tíma.

Næstu skref