Jazzland
Úr MacDougal Alley förum við til hægri MacDougal Street, síðan til vinstri West 8th Street og aftur til vinstri Christopher Street. Þar lítum við inn í West 4th Street, áður en við beygjum enn til vinstri í Bleecker Street.
Á þessu svæði er fullt af leikhúsum og jazzklúbbum, matvöruverzlunum og handverkstæðum, forngripabúðum og sérvizkuverzlunum, kaffistofum og veitingahúsum, þótt hverfið sé fyrst og fremst íbúðarhverfi. Göturnar eru krókóttar og villugjarnar. Þær minna frekar á London en New York, enda eru húsin ekki háreist. Þetta er Jazzland eða Off-Broadway, bezt þekkt undir nafninu Greenwich Village.
Hér ríkir ekki hraðinn og streitan, sem við sjáum í bankahverfinu og miðbænum. Þetta er notalegasti hluti borgarinnar, sums staðar rólegur, annars staðar fjörlegur. Hérna megin eða austan við Christopher Street er hinn hefðbundni hluti Greenwich Village, en hommahverfið handan eða vestan við götuna.
Þegar við komum í Bleecker Street, færist fjör í leikinn. Í þeirri götu og í þvergötunum MacDougal og Sullivan Street er verzlunarmiðstöð hverfisins með fögrum ávaxta- og blómabreiðum úti á gangstétt.
Á svæðinu, sem við höfum rölt um, eru jazzholurnar Blue Note, Village Vanguard og Sweet Basil, þjóðlagakrárnar Folk City og City Limits, matgæðingabúðin Balducci´s, veitingahúsin Sabor og Texarkana, gangstéttarkaffihúsið Reggio og barinn Chumleys.