Þegar tveir stjórnmálaflokkar eru farnir að auglýsa vikum saman fyrir milljón krónur á dag hvor um sig, er eðlilegt, að spurt sé, hver borgi þessi ósköp og hvað hann vilji fá í staðinn. Auglýsingarnar eru hluti herkostnaðar, sem fer í fimmtíu milljónir á hvorn flokk
Augljóst er, að það er ekki litli maðurinn í þjóðfélaginu eða aðrir stuðningsmenn flokkanna, sem leggja fram slíkar upphæðir. Ennfremur er augljóst, að fjársterkir aðilar leggja ekki fram milljónir króna hver fyrir sig án þess að vilja fá eitthvað fyrir sinn snúð.
DV hefur löngum mælt með, að fjárreiður flokkanna verði gerðar sýnilegar almenningi, svo að hann geti dregið af því ályktanir, ef hann kærir sig um. Þannig eru gerðar sýnilegar fjárreiður fyrirtækja á hlutabréfamarkaði, svo að fjárfestar fái betri innsýn í reksturinn.
Ekki er verið að ræða um að banna eitt eða neitt eða setja þak á upphæðir. Krafan felst aðeins í, að reikningar stjórnmálaflokkanna séu birtir og ennfremur listar yfir þá, sem leggja flokknum til meira en ákveðna lágmarksupphæð, t.d. tuttugu þúsund krónur.
Með framlögum er átt við beinharða peninga og óbeina, svo sem magnkaup á happdrættismiðum, viðskiptaafslátt umfram markaðsafslátt, svo og aðstöðu af ýmsu tagi, svo sem húsnæði og síma. Kjósendur eiga rétt á að vita, hverjir séu helztu vildarvinir flokkanna.
Stjórnmálaflokkarnir njóta þeirra sérstöku fríðinda, að vera ekki skattskyldir. Eðlilegt mótvægi við þessa aðstöðu þeirra er, að þeir séu látnir gera fjárreiður sínar gegnsæjar. Slíkur sýnileiki er einmitt eitt af því helzta, sem greinir lýðræðisríki frá öðrum ríkjum.
Velgengni lýðræðisríkja byggist á leikreglum og gagnkvæmu trausti, rétt eins og markaðs- og viðskiptahagkerfið byggist á leikreglum og gagnkvæmu trausti. Þetta traust verður ekki til úr lausu lofti, heldur afla menn þess með því að leggja spilin á borðið.
Marklaus er sú krafa framkvæmdastjóra stærsta stjórnmálaflokksins, að kjósendur eigi að treysta honum af því bara. Kjósendur treysta því, sem þeir sjá og eiga ekki að þurfa að sætta sig við að treysta því, sem logið er að þeim, ekki frekar en fjárfestar treysta slíku.
Krafan um opnar fjárreiður stjórnmálaflokka er engin sérvizka í DV. Þannig er málum hagað í Bandaríkjunum, Þýzkalandi og ýmsum öðrum nágrannalöndum okkar. Þetta er líka krafa, sem nokkrir íslenzkir háskólakennarar settu fram fyrir rúmlega hálfum áratug.
Það er þeim mun brýnna að setja slíkar reglur hér á landi en annars staðar, að stjórnmálaflokkarnir leika hér á landi í meira mæli hlutverk skömmtunarstjóra lífsins gæða en flokkar í nágrannalöndunum. Okkar hagkerfi er frumstæðara og byggist meira á fyrirgreiðslum.
Þess vegna er rétt, að kjósendur fái að vita, hvaða hagsmunaaðilum er annt um þennan eða hinn stjórnmálaflokkinn. Þvergirðingur ráðamanna flokkanna gegn þessari sjálfsögðu kröfu sýnir í raun, að þar loga fjárhagsleg ástarsambönd, sem ekki þola dagsbirtu.
Þegar tveir stjórnmálaflokkar eru farnir að verja hvor um sig fimmtíu milljónum króna til einnar kosningabaráttu, er leyndarstefnan orðin óverjandi. Margir hljóta að glata trausti á viðkomandi aðilum, af því að þeir átta sig á, að þetta eru í hæsta máta óeðlilegar fjárreiður.
Engin leið til aukins framgangs og fjárhagslegrar velgengni lýðræðis er betri en aukið traust milli aðila og það traust fæst helzt, þegar kerfið er gert gegnsætt.
Jónas Kristjánsson
DV