Ronda
Í nágrenni Ronda er fagurt landslag, einkum í fjalllendinu milli borgar og strandar, Serranía de Ronda, þar á meðal á leiðinni frá ströndinni, ef farið er upp hjá bænum San Pedro de Alcántara. Er þá farið frá Torremolinos vestur fyrir Marbella til San Pedro og þaðan inn í land til Ronda. Sú leið er lengri en hin stytzta, um 110 kílómetrar. Bærinn er 750 metrum yfir sjávarmáli.
Ronda er reist á fjallsbrún ofan við ána Guadalevín, sem rennur í djúpu gili, Tajo, gegnum miðbæinn. Gamli bærinn í Ronda er fra
mmi á klettaeyju, en nýi bærinn er á innri brúninni. Milli bæjarhlutanna liggja tvær brýr, 90 metra há Puente Nuevo frá 18. öld og enn eldri Puente Romano, sem veita hrikalegt útsýni yfir gilið.
Skemmtilegt er að rölta þröngar götur gamla bæjarins. Þar eru til dæmis gömul kirkja með íslömskum kallturni í márastíl; voldug og tvíturna Mondragón-höll í endurreisnarstíl; Salvatiera-höll; og máríska baðhúsið, sem minnir á, að Ronda var höfuðborg eins máraríkisins á Spáni. Auðvelt er að ganga um alla þessa staði, því að flatarmál gamla bæjarins er varla nema 15 hektarar.
Í nýja bænum, aðeins 100 metrum frá Puenta Nuevo, er einn elzti nautaatshringur Spánar, frá 1785. Það var einmitt í Ronda, að nautaat var fært í þann búning, sem gilt hefur æ síðan. Það var Francisco Romero, fæddur 1698, sem setti fram reglurnar. Sonarsonur hans, Pedro Romero, varð frægasti nautabani sögunnar. Frá nautahringnum liggur skemmtileg gata, Carrera de Espinel, með gömlum húsum.