6. Írland – Monasterboice

Borgarrölt
Monasterboice, Írland

Monasterboice

Við förum áfram eftir hliðarveginum samkvæmt vegvísi til Monasterboice.

Í kirkjugarðinum í Monasterboice er mikill sívaliturn frá víkingatíma. Slíka turna reistu írskir munkar til að skýla sér og dýrgripum kirkjunnar fyrir víkingum. Turninn var brenndur 1097 og gripum tvístrað, en stendur enn að mestu leyti.

Í kirkjugarðinum eru þrír hákrossar, einsteinungar frá 10. öld, sá stærsti 7 metra hár. Þetta eru einna bezt varðveittu og fegurstu hákrossar Írlands, rækilega myndhöggnir atburðum úr biblíunni.

Hákrossar með löngum fæti og baug um krossmiðju voru einkenni írskrar kristni frá 8. öld og fram á 10. öld, á stórveldistíma Írlands sem miðpunkts hins kristna heims. Þeir voru 2-7 metra háir, fyrst skreyttir óhlutlægum táknum og síðar biblíumyndum.

Ballymascanlon

Héðan förum við beint á N1 í átt til Dundalk. Við förum framhjá miðbænum eftir vegvísi í átt til Belfast, förum yfir brú og framhjá kirkjugarði út úr Dundalk, alltaf á N1, og skömmu síðar eftir vegvísi til Ballymascanlon hótels.

Næstu skref