Einn hinna sérkennilegu Spánarkonunga var Filipus II af Habsborg. Hann var ofsatrúaður kaþólikki og reisti sér vinkilrétt reglustrikaða grjóthöll mikla, El Escorial, í nágrenni Madrid, um miðja 16. öld.
Við skulum ljúka kaflanum um Madrid með því að skreppa í útrás til þessarar hallar, sem er 55 kílómetrum norðan við borgina.
El Escorial er í afar ströngum og kuldalegum fægistíl, hönnuð af Juan de Herrera og reist á síðari hluta 16. aldar, um leið og Madrid var gerð að höfuðborg. Höllin er ferningslaga, reist með mikla kirkju að miðpunkti og er að öðru leyti skipt í fjóra jafna ferninga, tveir af hverjum skiptast í fjóra minni ferninga. Í tveimur ferningum var klaustur, í einum háskóli og í einum vistarverur konungs. Allar línur eru afar hreinar, beinar og kuldalegar, í stærðfræðilegum málsetningum.
Gaman er að bera saman tiltölulega fátæklegar vistarverur Habsborgarans Filipusar II á 2. hæð við ríkmannlegar vistarverur eins eftirkomanda hans, Búrbónans Karls IV, á 3. hæð.
Í höllinni eru líka ýmis söfn, þar sem meðal annars má sjá kvöl heilags Máritz eftir El Greco. Hallarkirkjan er í fægirænum endurreisnarstíl; eins og grískur, jafnarma kross að grunnfleti, með víðáttumiklu hvolfi. Undir henni eru grafir flestra Spánarkonunga, sem ríkt hafa frá þeim tíma.
Og þá víkur sögunni að Barcelona.