New York Public Library
Þegar við komum út úr Empire State, getum við tekið leigubíl eða rölt norður 5th Avenue frá 34th Street til 40th Street, en þar er borgarbókasafnið í nýgnæfustíl með kórintusúlum, tveimur frægum ljónum og miklu tröppuverki, þar sem fólk situr í hópum, horfir á ysinn og þysinn í kring og reykir vöru, sem það hefur keypt í Bryant Park að safnbaki. Hér og þar við tröppurnar eru fluttar ræður eins og á Speakers´ Corner í London.
Inni eru geymd 5,5 milljónir eintaka af bókum. Þetta er n
æststærsta bókasafn Bandaríkjanna á eftir Library of Congress í Washington. Lestrarsalir eru margir, en áhrifamestur er aðalsalurinn á þriðju hæð. Á jarðhæðinni eru oft merkar sýningar.
Bryant Park
Að baki NY Public Library er Bryant Park, löngum ein helzta miðstöð fíkniefnasölu í borginni. Á síðustu árum hefur verið reynt að endurreisa hann með hádegis-konsertum, fornbókavögnum og skyndibitastöðum. Árangurinn er sá, að nú orðið notar margt skrifstofufólk í nágrenninu garðinn sem hádegisverðarstað og virðir ekki höndlarana viðlits. Við hliðina, sem snýr að 42nd Street, er hægt að taka fimm mínútna skák eða spila backgammon (kotru).