Aðeins ofar og sunnar við Prinsengracht er Westerkerk, byggð 1631 af feðgunum Hendrick og Pieter de Keyser í hreinskornum formum og mælirænum einingum. Hún hefur tvö snubbótt þverskip og kubblaga turn. Hún er dæmigerð kalvínsk kirkja, hefur engar hliðarkapellur fyrir dýrlinga og kórinn er stuttur, svo að skammt sé milli prests og safnaðar.
Turninn er hinn hæsti í Amsterdam, 85 metra hár, og býður dugnaðarfólki upp á óviðjafnanlegt útsýni í góðu skyggni. Í turninum er klukknasamstæða eftir Francois Hemony, sem raunar hefur sett saman slíkar klukkur í fleiri turnum borgarinnar. Samstæður þessar spila fjörug lög, sem klingja í eyrum ferðamanna, löngu eftir að þeir eru farnir heim.
Á torginu fyrir framan bjó franski heimspekingurinn Descartes um tíma á nr. 6. Þaðan skrifaði hann í bréfi: „Í hvaða landi væri að finna slíkt fullkomið feelsi?“ Þar vísaði hann til þess, að Holland, með Amsterdam í fararbroddi, hefur löngum verið griðastaður flóttamanna og annarra þeirra, sem ekki bundu bagga sína sömu hnútum og samferðamenn.
Héðan getum við farið til baka yfir Prinsengracht og kynnst Jordaan nánar. Slíkri könnun hæfir engin sérstök leiðarlýsing. Ef við höfum hins vegar fengið nóg af rölti í bili, þá göngum við Raadhuisstraat til austurs að fyrrverandi ráðhúsi og núverandi konungshöll, þar sem við hófum þessa göngu.
Leiðsögninni um Amsterdam er lokið og við getum stungið okkur inn á Drie Fleschjes að baki Nieuwe Kerk eða farið yfir torgið til að prófa nýjan snafs hjá Gijsberti Hodenpijl.
Nú er komið að því að fá sér bílaleigubíl og fara í stuttar ferðir frá Amsterdam um Holland, byrjið hér