6. Santiago – Catedral Vieja

Borgarrölt

Catedral Vieja

Catedral Vieja, Compostella 3Dómkirkjan í Compostela var reist á 11., 12. og 13. öld í rómönskum stíl, sem barst til Spánar frá Frakklandi. Hún er eitt fárra spánskra dæma um þann stíl, þar sem mestur hluti Spánar var á þeim tíma á valdi Mára. Kirkjan var þá mjög stílhrein sem slík, að öðru leyti en því, að mikil vængjaþrep liggja upp í hana, því að hún er byggð ofan á hvelfingu, þar sem varðveittur er helgur dómur Jakobs postula. Hún skiptist samkvæmt hefðum þess tíma í eitt aðalskip í miðju og tvö hliðarskip. Í þessari dómkirkju náðu hliðarskipin í boga aftur fyrir háaltari, svo að skrúðgöngur pílagríma gætu farið í hring innan í kirkjunni. Á þeirri leið var skotið út fjölda af litlum kapellum ýmissa dýrlinga.

Catedral Vieja, Compostella

Catedral Vieja, Compostella

Um miðja sautjándu öld var sett nýtt vesturvirki á kirkjuna, svokölluð Obradoriro-framhlið í hlaðrænum stíl, sem einni öld síðar var klædd í afar skrautlegan, kúrríkskan hlaðstíl. Beint fyrir innan framhliðina er Pórtico de la Gloria frá 1188. Þar þökkuðu pílagrímarnir fyrir að komast á leiðarenda með því að krjúpa við miðsúluna, sem stendur enn í dag, slitin af fingraförum milljónanna.

Suðurvirki kirkjunnar er í upprunalega, rómanska stílnum frá 12. öld. Þar eru Silfursmíðadyrnar, Puerta de las Platerías, nákvæmlega þaktar í tilhöggnum myndum.

Við förum umhverfis kirkjuna, því að torg standa að henni á alla vegu, að vestanverðu Plaza del Obradoriro, að sunnanverðu Plaza de la Platerías, að austanverðu Plaza de la Quintana og að norðanverðu Plaza de la Immaculada. Suður frá þremur fyrstnefndu torgunum liggja skemmtilegar göngugötur um gamla miðbæinn. Þar eru kaffihús og námsmannakrár, silfursmiðir og svartarafs-smiðir.

Nú er röðin komin að borgum Kastilíu.

Næstu skref