Landssamband hestamannafélaga samþykkti samhljóða á landsfundi í gær, að mæla við félagsmenn með reiðleiðasafni mínu á vefnum. Það telur rúmlega 600 reiðleiðir, sumpart leiðir, sem ég og aðrir höfum farið, sumpart leiðir af nýlegum kortum, en mestanpart leiðir upp af aldargömlum kortum danska sjóhersins. Þau eru frábær heimild um samgöngur landsmanna fyrir hundrað árum og sýna ýmsa flokka reiðleiða. Landsþingið hvatti félagsmenn til að senda mér viðbætur og fleiri leiðir, svo að þetta safn megi verða almennt, enda er það aðgengilegt öllum á veraldarvefnum.