7. Barcelona – Plaça Reial

Borgarrölt
Placa Reial, Barcelona

Placa Reial

Barri Gótic, Barcelona 2

Barri Gótic

La Rambla

Hér við Monument a Colom er suðurendinn á La Rambla, helztu röltgötu borgarinnar. Hún liggur héðan til Plaça de Catalunya, þaðan sem við hófum göngu okkar. Við förum eftir henni miðri, þar sem er löng og mjó eyja með platantrjám, blómabúðum, fuglabúðum, kaffihúsum og blaðsöluturnum, en bregðum okkur inn í sumar hliðargötur.

Fyrst komum við að vaxmyndasafninu til hægri í Museu de Cera, á horninu við þvergötuna Passatge Banca. Síðan lítum við til vinstri inn í þvergötuna Carrer Nou de la Rambla, þar sem eitt af húsum Gaudís er rétt við hornið. Það er Palau Güell, virkishús með auðþekkjanlegum skreytingum úr smíðajárni og hefur að geyma leikhúsminjasafn (A4). Á þessum slóðum er Kínahverfið í borginni, Barri Chino, þar sem mikið er um hórur og vasaþjófa.

Plaça Reial

Andspænis götunni, hinum megin við La Rambla, er þvergatan Carrer Colom, sem liggur að lokuðu göngutorgi, Plaça Reial. Það er heildarteiknað torg í stíl við Plaza Mayor í Madrid, með skuggsælum súlnagöngum og kaffihúsum allt um kring.

Á þessu torgi hittast frímerkjasafnarar og myntsafnarar á sunnudagsmorgnum. Á nóttunni eru hér rónar og fíkniefnaneytendur, sem geta valdið óþægindum.

Nokkru norðar á La Rambla komum við vinstra megin að Gran Teatre del Liceu, á horni þvergötunnar Sant Pau. Það er borgaróperan, byggð 1846, með risastórum áhorfendasal, en lætur lítið yfir sér að utanverðu.

Plaça del Pi

Andspænis Liceu liggur þvergatan Cardenal Casanas á ská til norðurs að torgunum Plaça del Pi og Plaça Sant Joseph Oriol undir kirkjunni Mare de Déu del Pi. Á þessum torgum er einn af flóamörkuðum borgarinnar. Þar eru líka oft uppákomur í listum. Norður af Plaça del Pi er heilmikið hverfi verzlana með göngugötum undir þaki, eins konar bazar á austræna vísu, en hreint og fágað á vestræna vísu.

Næstu skref