Tabularium
Að baki gnæfir Tabularium á Capitolum, reist 78 f.Kr. til varðveizlu ríkisskjala, lagabálka og ríkisfjármuna. Neðri hlutinn með súlnariðum er upprunalegur, en ofan á var reist Palazzo Senatorio á 12. öld. Tabularium markaði norðvesturenda Rómartorgs.
Hægra megin fyrir framan Tabularium stóð áður fyrr Sáttahof, Concordia, til minningar um sátt höfðingja og alþýðu Rómar 367 f.Kr.
Fyrir miðju Tabularium standa enn þrjár kórinþusúlur úr hofi Vespanianusar keisara, sem sonur hans og sonarsonur létu reisa að honum látnum árið 79.
Vinstra megin standa átta súlur úr hofi Saturnusar frá 42 f.Kr., en upprunalega var hér elzta hof torgsins, reist 497 f.Kr.
Að baki Saturnusarsúlna eru tólf kórinþusúlur úr súlnagöngum, sem Dominitianus keisari lét reisa til heiðurs tólf helztu Rómarguðum undir lok 1. aldar.