Kaupmannabærinn
Þegar við komum úr safninu, beygjum við til vinstri framhjá Hæstarétti Danmerkur og aftur til vinstri milli safns og Hallarkirkju Kristjánsborgar og komum út á síkisbakkann. Handan síkis sjáum við húsaröðina við Gömluströnd (Gammel Strand), sem við munum senn kynnast nánar.
Við förum til vinstri yfir Hábrú (Højbro) og virðum fyrir okkur framboð og ferskleika þess, sem fiskisölukonan við brúarsporðinn hefur á boðstólum. Síðan förum við inn á Højbro plads og skoðum styttuna af Absalon biskupi, stofnanda Kaupmannahafnar, og fögur, gömul hús á nr. 6, 9 og 17-21.
Héðan er ágætt útsýni til baka, til Hólmsinskirkju, Kauphallar, Kristjánsborgar, Hallarkirkju og Thorvaldsenssafns. Hér er líka skammt til góðra fiskréttahúsa, ef við erum sein fyrir og hádegissultur farinn að segja til sín. Vinstra megin, í kjallara hornhússins á Ved Stranden 18 og Fortunstræde, er Fiskekælderen. Hægra megin, á Gömluströnd, eru Fiskehuset og Kroghs.
Við göngum einmitt Gömluströnd meðfram síkinu og virðum fyrir okkur hin gömlu hús, einkum Frænda (Assistenshuset) frá 1728, aðsetur menntamálaráðuneytisins, við hinn enda götunnar. Hægra megin þess förum við inn í skemmtilega þorpsgötu, hlaðna rómantík fyrri tíma. Þetta er Snaragata (Snaregade), mjó og undin, með gömlum kaupsýsluhúsum á báða vegu. Á nr. 4 er veitingastaðurinn Esbern Snare.
Við erum komin inn í hina gömlu Kaupmannahöfn borgarastéttarinnar, kaupmanna og iðnaðarmanna. Hér heita margar götur eftir gömlum einkennisstörfum þeirra, Skindergade, Vognmagerstræde, Farvergade, Brolæggerstræde og Læderstræde. Ein heitir Hyskenstræde eftir húsum, “Häuschen”, þýzkra Hansakaupmanna.
Á mótum Snaragötu og Magstræde göngum við spölkorn til hægri inn í Knabostræde að gatnamótum Kompagnistræde, bæði til að drekka í okkur meira af gömlum tíma og til að fá útsýni til Frúarkirkju, sem við munum skoða nána
r síðar. Förum síðan Knabostræde til baka og beygjum til hægri í Magstræde.
Þetta er önnur dæmigerð gata gamla tímans í Kaupmannahöfn. Húsin nr. 17 og 19 eru af sumum talin vera elztu hús borgarinnar. Á nr. 14 er Huset, sem er eins konar klúbbur eða félagsmálamiðstöð ungra Kaupmannahafnarbúa.
Við förum ekki óðslega hér í gegn, því að Snaragata og Magstræde eru sennilega þær götur, sem bezt hafa varðveitt andrúmsloft gamalla tíma. Vindingur þeirra veldur því, að við sjáum ekki til nútímalegri gatna og stöndum því hér eins og í lokuðum heimi.