Við höldum áfram með bátnum örstutta leið yfir sund til eyjarinnar Murano.
Eyjaklasi, tengdur með brúm, og miðstöð glergerðanna, sem hafa gert feneyskan kristal heimsfrægan. Gleriðjan var flutt hingað frá Feneyjum 1291 til að draga úr brunahættu í borginni sjálfri. Lengi var þetta helzta miðstöð glergerðar í Evrópu. Tugþúsundir manna bjuggu á eyjunni og höfðu framfæri af glergerð, en máttu um leið sæta hafnbanni vegna iðnaðarleyndarmála.
Flestir gripirnir eru ómerkilegir og margir smekklausir, en saman við er nokkuð af fögrum munum. Meðal góðra fyrirtækja, sem leggja áherzlu á forna hönnun í feneyskum stíl, eru Barovier e Toso, Paolo Rossi, Seguso og Venini. Gaman er að fara á verkstæðin og fylgjast með glerblæstrinum.