7. Markúsartorg – Palazzo Ducale

Borgarrölt
Palazzo Ducale, Feneyjar

Palazzo Ducale

Við lágmyndina er inngangurinn í hertogahöllina.

Hertogahöllin er einkennistákn Feneyja, enda nýtur hún þess að vera til sýnis á lónsbakkanum framan við kirkjuna. Hún er mannvirkið, sem heilsar ferðamönnum, sem koma sjóleiðina til Markúsartorgs. Hún var öldum saman stjórnmálamiðstöð Feneyja, heimili hertogans, fundarstaður ríkisráðsins og öldungaráðsins, aðsetur yfirdómstólsins og leynilögreglunnar.

Í núverandi mynd er hún leikandi léttbyggð og leiftrandi fögur gotnesk höll frá 14. öld og upphafi 15. aldar. Hún er afar sérstök, byggð á tveimur hæðum súlnaganga, sem ná eftir öllum torghliðum hallarinnar, þeirri efri í blúndustíl, sem víða má sjá í Feneyjum. Ofan við súlnagöngin eru fagurlega mynztraðir og ljósir veggir úr marmara frá Verona.

Nú á tímum er hún safn. Til sýnis er íbúð hertogans og fundarsalir ríkisráðs og öldungaráðs, svo og ríkisfangelsið. Þessi glæsilegu salarkynni gefa góða hugmynd um stórveldistíma Feneyja, þegar borgin atti kappi við stórveldi á borð við Austrómverska keisaradæmið og síðar Tyrkjaveldi um yfirráð á austanverðu Miðjarðarhafi.

Næstu skref