7. Persía – Shiraz – skáldin

Borgarrölt

Shiraz

Shiraz er ein af stórborgum Persíu og sú, sem stendur næst uppruna Persa sem meginþjóðar í vestanverðri Asíu. Hún er líka fræg sem uppruni Shiraz vínþrúgna, sem nú eru þekktar víða um heim, einkum í Ástralíu og Rhone-dal í Frakklandi. Einkum er hún samt fræg fyrir þjóðskáld Persa, Hafez og Saadi, sem þar voru fæddir.

Um skeið var Shiraz höfuðborg Persíu. Þarna hefur verið borg í 4000 ár, enda liggur staðurinn vel fyrir samgöngum í sunnanverðu landinu og nýtur nálægðar við Persaflóa.

Qu’ran hliðið

Borgarhlið Shiraz er Qu’ran hliðið frá ofanverðri 18. öld við Allah-o-Akbar gljúfrið, sem þurfti að fara um til að komast til borgarinnar. Í sal ofan á miðju hliðinu voru lengi geymd tvö handskrifuð eintök af kóraninum, en þau eru nú á safni í borginni.

Hafez minnismerki Shiraz

Hafez minnismerki í Shiraz

Saadi minnismerki Shiraz

Saadi minnismerki í Shiraz

Hafez og Saadi

Grafhýsi skáldanna Hafez og Saadi eru listaverk í fögrum görðum borgarinnar. Mikil aðsókn innlendra ferðamanna sýnir dálæti Persa á skáldum sínum, sem eru þjóðhetjur þar í landi. Þeir eru í Persíu taldir hafa verið meiri skáld en efasemdarmaðurinn Omar Khayyám, sem er þekktari á Vesturlöndum.

Hafez var uppi á 14. öld og orti mikið um ástir og vín, meðal annars um dálæti hans á fegurð ungra drengja. Verk hans eru til á fjölmörgum heimilum og margir kunna utanað vers upp úr þeim, sem notuð eru sem spakmæli í daglegu lífi.

Saadi var uppi á 13. öld og orti mikið um góða siði og rétta hegðun. Klerkaveldið í Persíu hefur þess vegna dálæti á honum, en hann nýtur einnig vinsælda almennings eins og Hafez.

Næstu skref