Amalfi-strönd
Eftir skoðun Pompei er rétt að drífa sig til Sant’Agata sui due Golfi, sem er nálægt Sorrento, um 40 km frá Pompei og 60 km frá Napoli, til að finna sér gistingu. Síðan þarf að búa sig undir kvöldverð í bezta veitingahúsi Suður-Ítalíu, Don Alfonso.
Um sæbratta Amalfi-ströndina liggur krókóttur vegur frá Sant’Agata sui due Golfi til Salerno, um 80 km leið. Þetta er talin ein fegursta strandlengja Ítalíu. Niðri í djúpum giljum liggja fámenn fiskiþorp með litla víkurrennu til sjávar. Utan í sjávarhömrum hanga sumarhús auðmanna.
Fyrsta þorpið á leiðinni er hótelbærinn Positano, gamalt fiskimannaþorp, sem orðið er að ferðamannabæ. Þorpið stendur í brattri hlíð, þar sem sums staðar eru hamrar milli húsa. Hvítkölkuð húsin minna á gríska eða spánska eyju.
Vallone di Furore er hrikalegasti hluti leiðarinnar. Þar kúrir lítið fiskiþorp undir klettum og bröttum hlíðum.
Ferðamannabærinn Amalfi hefur gefið leiðinni nafn sitt. Þar eru húsin hvít eins og í Positano, en ströndin ekki eins hrikaleg, svo að þar er pláss fyrir pínulítinn miðbæ með kirkju í austrænum stíl.
Frá Salerno eru um 60 km til baka til Napoli.