Við höldum svo úr bænum áleiðis til Verona, um 40 km leið.
Frægust er borgin sem sögusvið leikrits Shakespeare um Rómeó og Júlíu, elskendur frá 1302. Enn eru mörg hús gamla miðbæjarins frá þeim tíma og sum raunar eldri, þar á meðal hið fræga, tuttugu alda gamla hringleikahús. Borgin var 1263-1387 ein af endurreisnarborgum Ítalíu, undir stjórn Scaligeri hertoganna og undir stjórn feneyska heimsveldisins 1405-1814.
Ferðamenn koma til Verona til að komast í stemmningu á söngleik undir berum himni og til að kynnast borg, sem blandar saman endurreisnarstíl meginlands Ítalíu og hinum austræna stíl frá Miklagarði, sem einkennir nágrannaborgina Feneyjar. Gott er að skoða miðbæinn, því að hann er samanrekinn á eins ferkílómetra svæði, sem er vafið fljótinu Adige á þrjá vegu.
Í borginni eru fræg torg, Piazza Brà, Piazza delle Erbe og Piazza dei Signori; frægar hallir, Palazzo del Comune, Palazzo di Cangrande; og frægar kirkjur, Santa Anastasia og Duomo; svo og Péturskastali og gamli borgarkastalinn. Þar eru einnig háloftagrafhýsi Scaligeri-hertoganna og rómverskt útileikhús, auk hringleikahússins fræga.