70 króna þrælar.

Greinar

Þörungaverksmiðja var reist fyrir mörgum árum á Reykhólum til að vernda byggð í Austur-Barðastrandarsýslu. Rekinn var verkfræðingurinn, sem reiknaði út, að hún gæti ekki borið sig. Síðan hefur verksmiðjan verið starfrækt með harmkvælum og vafasömum bjargráðum.

Í stað þess að flytja á mölina eins og Íslendingar höfðu gert í sjö áratugi, var búseta heimamanna vernduð gegn svokallaðri “röskun” með því að láta þá hafa vinnu í hinni lánlausu verksmiðju. Þar vinnur nú fólk, sem hefur 70 krónur á tímann og kemst ekki hærra.

Þannig hafa heimamenn gengið í gildru byggðastefnunnar. Þeir hokra enn í sveitinni og skipta við kaupfélagið í Króksfjarðarnesi, þótt hagur þeirra væri nú mun betri ef þeir hefðu fylgt Íslandssögu þessarar aldar, flutt á mölina eins og þorri þjóðarinnar gerði.

Byggðagildran er ein umfangsmesta starfsemi og hin langdýrasta, sem rekin er hér á landi. Hún lýsir sér í ótal myndum, sem allar miða að því að hindra fólk í að flytja sig, þangað sem tækifærin eru. Öflugust og dýrust er gildran í hinum hefðbundna landbúnaði.

Ungir bændasynir eru studdir til að fjárfesta í gersamlega úreltum atvinnuvegi. Þeir eru látnir stofna til skulda í kaupfélaginu. Að meðaltali á fjögurra ára fresti lætur ríkið breyta þessum skuldum í föst lán, sem tryggja æviráðningu kaupfélagsþrælanna.

Sérstök búalög verið sett til að hindra bændur í að selja jarðir sínar á markaðsverði til að koma sér fyrir á mölinni. Slík lög stuðla að því að viðhalda veltu vinnslustöðva og sölufélaga landbúnaðarins og valdi hinna reykvísku yfirmanna landbúnaðarins.

Forstjórar Framleiðsluráðs og sjálfseignarstofnana þess, svo og Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda, halda uppi sérstökum kennisetningum um, að sveitir landsins séu eins konar byggðasafn eða þjóðkirkja, sem haldi uppi leifum íslenzkrar menningar.

Bændum er sagt, að það sé hugsjón að hokra áfram, þótt sú iðja kosti ríkissjóð einan jafngildi heillar tveggja milljón króna íbúðar yfir hvern einasta bónda á fimm ára fresti, íbúðar, sem auðvitað ætti að reisa á mölinni til að varðveita verðgildi fjárfestingarinnar.

Þeir, sem benda þrælum landbúnaðarkerfisins á þessa gildru, eru kallaðir óvinir bænda. Sérstakar samþykktir eru gerðar um að vara bændur við að lesa dagblöð, þar sem sannleikurinn kemur fram. Og flestir bændur trúa enn klæðskerasaumuðum forstjórum sínum í Reykjavík.

Auðvitað hefði þjóðin á síðustu áratugum átt að raska sér jafnhratt á mölina og hún gerði áratugina þar á undan. Hún hefði átt að flytja, þangað sem hiti, rafmagn og önnur þjónusta var ódýrust, þangað sem hafnir voru beztar og sókn á miðin ódýrust.

Allur sá þorri þjóðarinnar, sem býr á Reykjavíkursvæðinu og í hinum kraftmeiri hluta þéttbýlis í öðrum landshlutum, kannast ekki við, að röskun sín eða foreldranna hafi orðið til ills. Það liggur í eðli dugmikils menningarsamfélags að vera í sífelldri röskun.

Forstjórar stöðnunarinnar eru hins vegar enn að reyna að byggja verksmiðjur ofan á hinn hefðbundna landbúnað til að fólk geti unnið fyrir 70 krónur á tímann og safnað skuldum í kaupfélaginu, – í stað þess að ganga á vit frelsisins í stöðum á borð við Reykjavík.

Jónas Kristjánsson.

DV