78 mínútur á dag

Greinar

Landbúnaðarráðuneytið er þessa dagana að semja við hagsmunasamtök landbúnaðarins um nýjan búvörusamning, sem á að binda hendur tveggja næstu ríkisstjórna. Nýi samningurinn á að vera sex ára samningur og gilda til ársins 1998, fram yfir tvennar kosningar.

Jón Helgason landbúnaðarráðherra sætti mikilli gagnrýni fyrir að undirrita fjögurra ára búvörusamning við hagsmunasamtök landbúnaðarins skömmu fyrir kosningar. Með því batt hann hendur ókominnar ríkisstjórnar. Nú gengur Steingrímur Sigfússon enn lengra.

Fréttir úr kerfinu benda til, að samningurinn verði svipaður hinum fyrri. Ríkið mun áfram, fyrir hönd skattgreiðenda, ábyrgjast verð og sölu á svipuðu magni óseljanlegra landbúnaðarafurða og verið hefur í gamla samningnum. Aðlögun verður frestað fram yfir aldamót.

Athyglisvert er, að samningur upp á 36 milljarða króna af fé skattgreiðenda er gerður innan landbúnaðarkerfisins. Fulltrúi skattgreiðenda í samningunum er landbúnaðarráðuneytið, sem í vaxandi mæli er orðið helzta áróðurs- og sölustofnun landbúnaðarins.

Niðurstaðan verður í stíl við það. Landbúnaðurinn verður svipaður baggi á skattgreiðendum og hann hefur verið, heldur dýrari en allt heilbrigðiskerfið í landinu. Hann verður eini atvinnuvegurinn í landinu, sem er rekinn eins og grein af velferðarmeiði ríkisins.

Ástandið er orðið þannig, að ríkið leggur árlega fram um 7,5 milljarða króna af fé skattgreiðenda til að halda úti hefðbundnum landbúnaði. Til viðbótar leggur ríkið árlega fram, í formi innflutningsbanns, um 12 milljarða króna af fé neytenda til að halda uppi þessari grein.

DV er ekki lengur eini aðilinn, sem bendir á þetta. Fimm hagfræðingar hjá Háskólanum, Seðlabankanum og Þjóðhagsstofnun hafa hver fyrir sig og með mismunandi reikningsaðferðum fundið út, að innflutningsbann landbúnaðarafurða eitt sér kostar 10­15 milljarða á ári.

Í þennan streng hafa tekið Þorvaldur Gylfason háskólaprófessor, Þórólfur Matthíasson háskólalektor, Guðmundur Ólafsson hjá Hagfræðistofnun háskólans, Markús Möller hjá Seðlabankanum og Sigurður Snævarr hjá Þjóðhagsstofnun, svo að þekkt dæmi séu nefnd.

Þórólfur hefur eins og Birgir Árnason, hagfræðingur hjá Fríverzlunarsamtökum Evrópu, fundið út, að raunveruleg verðmætasköpun í landbúnaði sé engin. Það kemur heim og saman við útreikninga í DV um, að landbúnaður eykur viðskiptahalla og sparar ekki gjaldeyri.

Innfluttar landbúnaðarvörur mundu, ef leyfðar væru, kosta 2,4 milljarða á ári í erlendum gjaldeyri. Það er heldur lægri tala en sem nemur erlendum aðföngum hins innlenda landbúnaðar, svo sem í vélum, tækjum og olíu. Gjaldeyrisdæmi landbúnaðarins er því öfugt.

Einnig er rangt, sem heyrist úr herbúðum landbúnaðarkerfisins, að ekki sé á vísan að róa í kaupum á ódýrum mat frá útlöndum. Allt bendir til, að styrjaldarhætta fari ört minnkandi og að vaxandi fari offramleiðsla, sem leitar útrásar á alþjóðlegum markaði.

Venjulegur fjölskyldufaðir, sem þarf fyrir fjórum að sjá, er klukkutíma og átján mínútur á degi hverjum að vinna fyrir ríkisrekstrinum á hinum hefðbundna landbúnaði. Þetta er mikilvægasta ástæða þess, að fólk hefur flúið land þúsundum saman á undanförnum árum.

Það er í stíl, að hagfræðingur hagsmunasamtaka landbúnaðarins hefur að aukastarfi að veita landbúnaðarráðherra góð ráð um gerð hins nýja búvörusamnings.

Jónas Kristjánsson

DV